Málþing um málefni barna eftir skilnað og sambúðarslit foreldra

Fjallað verður um málefni barna eftir skilnað og sambúðarslit foreldra á málþinginu
Fjallað verður um málefni barna eftir skilnað og sambúðarslit foreldra á málþinginu

Málþing um málefni barna eftir skilnað og sambúðarslit foreldra verður haldin föstudaginn 19. febrúar.

Að málþinginu standa fjölskyldu-og félagssvið Reykjanesbæjar, Keflavíkurkirkja og Kjalarnessprófastsdæmi en það er ramhald á því samstarfi sem hófst milli framangreindra aðila með ráðstefnunni Áfram ábyrg! áhrif skilnaðar á börn sem haldin var í safnaðarheimili Keflavíkurkirkju 2007.

Margir góðir gestir taka þátt á málþinginu næsta föstudag.
Geir Gunnlaugsson landlæknir ætlar í upphafi að fjalla almennt um börn og fjölskyldur á tímum kreppu eins og íslenska þjóðin er að fara í gegnum núna. Næstur tekjur Benedikt Jóhannsson sálfræðingur við og fjallar um viðfangsefnið, fjölskyldan, börn og skilnaðir út frá nýjustu rannsóknum og Sólveig Sigurðardóttir meistaranemi í félagsráðgjöf færir viðfangsefnið nær okkur og gerir m.a. grein fyrir niðurstöðum rannsóknar hennar og dr. Sigrúnar Júlíusdóttur félagsráðgjafa á högum einstæðra foreldra á Ásbrú, Reykjanesbæ.

Fjölskyldu-og félagssvið Reykjanesbæjar og Keflavíkurkirkja fengu sl. haust þau Steinunni Önnu Sigurjónsdóttur Cand.psych nema við HÍ og Svein Ólaf Magnússon nema við KHÍ og leiðbeinanda við Akurskóla til að byggja upp og stýra hópastarfi fyrir börn sem farið hafa í gegnum sambúðarslit/skilnað foreldra. Hér er á ferðinni frumkvöðlastarf sem Steinunn Anna ætlar að gera grein fyrir og að lokum ætlar sýslumaðurinn í Keflavík, Þórólfur Halldórsson ásamt fulltrúa sínum Ásgeiri Eiríkssyni að segja frá fyrirhuguðum breytingum á Barnalögum.

Málþingi er öllum opið og aðgangur er ókeypis.