Margrét Blöndal sýnir í Suðsuðvestur

Margrét H. Blöndal sýnir í Suðsuðvestur og nefnist sýning hennar Slíður (the heart is a lonely hunter).  Sýningin opnar laugardaginn 14. maí klukkan 16:00 og lýkur 5. júní.

Teikningarnar sem Margrét sýnir í Suðsuðvestur voru dregnar upp á meðan á vinnustofudvöl hennar stóð í Laurenz Haus Stiftung í Basel í Sviss veturinn 2010 - 2011.

Margrét hefur útbúið sérstaka umgjörð um teikningarnar sem eru allar í sömu stærð, eins konar hulstur, og er hverri teikningu rennt inn um rifu á kantinum á gegnsæjum kassa. Hver teikning verður þannig að þrívíðum hlut sem er ýmist stillt upp á gólfi eða hengdur á vegg.

Með nafnagiftinni, Slíður, má lesa framsetninguna sem svo að Margrét hafi slíðrað verkin um sinn, að þau séu í hvíld að loknum átökum.  Teikningarnar vega salt í togstreitu á milli umhverfisins og sjálfs sín og eru nú slíðraðar í nokkurs konar vopnahléi.

Þótt Margrét kunni í heiti sýningarinnar að gefa til kynna átök listarinnar við að fanga umhverfi sitt vísar hugtakið slíður einnig til hvíldar og verndar enda notað um himnu sem hjúpar nýgræðing. Teikningarnar eru unnar af mikilli varfærni og alúð og veitir ekki af skjóli í umgjörð sýningarkassanna.

Margrét H. Blöndal er fædd árið 1970 í Reykjavík. Hún lærði í Myndlista- og handíðaskóla Íslands og að auki í Mason Gross School of Arts í Rutgers háskólanum í New Jersey í Bandaríkjunum þaðan sem hún útskrifaðist árið 1997. Hún hefur undanfarin ár haldið einkasýningar í Listasafni Reykjavíkur, Fort Worth Contemporary Arts í Texas í Bandaríkjunum, Mother´s Tankstation í Dublin á Írlandi og í galleríi Nicolas Krupp í Basel í Sviss.

Margrét átti verk á hinni alþjóðlegu stórsýningu Manifasta 7 á Ítalíu árið 2008 og var tilnefnd til Sjónlistaverðlaunanna sama ár.

Þess má geta að Margrét sýnir Slíður (the heart is a lonley hunter) á 6. Momentum tvíæringnum í Moss í Noregi í sumar.

Suðsuðvestur er á Hafnargötu 22, i Reykjanesbæ.  Opið er um helgar frá kl. 14-17 og eftir samkomulagi í síma; 662 8785 www.sudsudvestur.is