Ólafur Helgi Kjartansson lögreglustjóri á Suðurnesjum er handhafi fyrsta Menningarkorts Reykjanesbæjar. Kortið gildir í Rokksafn Íslands, Duus Safnahús og Bókasafn út árið 2016 og kostar aðeins 3.500 krónur.
Ákveðið hefur verið að setja í sölu sérstök Menningarkort Reykjanesbæjar til að auðvelda íbúum og gestum að njóta menningar á hagkvæmari máta en annars væri. Menningarkortið kostar kr. 3.500 og er til sölu á þeim þremur stöðum sem þau gilda inn á, þ.e. Duus Safnahúsum, Rokksafni Íslands og Bókasafni Reykjanesbæjar.
Kortin gilda sem bókasafnskort og aðgöngumiðar að hinum söfnunum tveimur allt árið 2016 en einnig veita þau 10 % afslátt í safnbúðunum og afslátt á ýmsa viðburði, sýningar og þjónustu á vegum menningarhópa og stofnana í bæjarfélaginu. Nánari afsláttarkjör má lesa um á vef bæjarins jafn óðum og þau eru gerð.
Aðgangseyrir í Duus Safnahús og Rokksafn Íslands er nú kr. 1.500 og bókasafnskort kostr kr. 1.800 þannig að Menningarkortið gefur góðan afslátt.
Íbúar eru hvattir til að verða sér úti um menningarkort og fá þannig ókeypis aðgang að söfnunum það sem eftir er ársins.
Það voru Sigrún Ásta Elefsen og Jóhann D. Jónsson sem afhentu Ólafi Helga fyrsta kortið í Listasafni Reykjanesbæjar, Duus Safnahúsum.