Menningarverðlaun Reykjanesbæjar 2011

Fyrrum verðlaunahafar.
Fyrrum verðlaunahafar.

Menningarverðlaun Reykjanesbæjar 2011

Afhending Súlunnar, menningarverðlauna Reykjanesbæjar fyrir árið 2011, fór fram við hátíðlega athöfn í Listasal Duushúsa miðvikudaginn 16. nóv. sl. kl. 18.00.  Verðlaunin eru veitt þeim sem hafa unnið vel að menningarmálum í bæjarfélaginu og var þetta í fimmtánda sinn sem Súlan var afhent.  Að þessu sinni voru veitt tvenn verðlaun; önnur til einstaklings og hin til menningarfélags.  Verðlaunagripurinn er  hannaður og smíðaður af keflvísku listakonunni Elísabetu Ásberg og má þar sjá súluna, fuglinn úr bæjarmerki Reykjanesbæjar, gerða úr silfri.  Við sama tækifæri var fyrirtækjum sem styrktu Ljósanóttina, menningar og fjölskylduhátíð Reykjanesbæjar, þökkuð aðstoðin.

Félag harmonikuunnenda:
Félag harmonikuunnenda á Suðurnesjum F.H.U.S. var stofnað 21. febrúar árið 1990 og er eitt fimmtán aðildarfélaga í Sambandi  íslenskra  harmonikuunnenda.  Stofnfélagar voru 45 talsins og var  markmið félagsins strax frá byrjun,  að vinna að framgangi harmoníkutónlistar og efla kynni félagsmanna og annarra áhugamanna á harmoníkutónlist.  Félagar geta verið áhugafólk um harmoníkutónlist, burt séð frá því hvort þeir leika á harmoníku eða ekki eða hafa hljóðfæraleik að atvinnu eða ekki, enda er félagið hvorki hagsmuna- né stéttarfélag.  Félagið hefur tekið þátt í alls kyns menningarstarfi hér á Suðurnesjum og verið með menningarsamning við Reykjanesbæ um árabil.
Síðustu tvo áratugi hefur Félag harmonikuunnenda unnið dyggilega að þessu markmiði með hljómleika- og skemmtanahaldi  ásamt  ýmsu öðru sem telja má harmoníkutónlist til framdráttar, allt eftir því sem efni og ástæður hafa staðið til á hverjum tíma.  Sem dæmi má nefna að árið 1994 færði félagið Tónlistarskóla Reykjanesbæjar tvær harmoníkur að gjöf til þess að nota við kennsluna.  Félagið hefur tekið þátt í flest öllum bæjarhátíðum á Suðurnesjum ásamt fjölda annarra viðburða hér á svæðinu og einnig leikið tónlist sína annars staðar á landinu.  Félagið stóð fyrir landsmóti  Sambands íslenskra harmonikuunnenda hér í Reykjanesbæ og var til þess tekið hve hlutirnir voru vel skipulagðir hjá þeim félögum og vel haldið utan alla hluti. Landsmótið var kvikmyndað og öll tónlistin tekin upp og gefin út í 8 diska safni og hefur sú tónlist heyrst víða. Við þetta tækifæri gaf félagið líka  út geisladisk með tónlist sinni.
Félagsmenn hafa frá fyrstu tíð verið viljugir að koma fram og spila við alls kyns tækifæri  og um áraraðir hafa þeir t.d. heimsótt hjúkrunar- og öldrunarheimili, félagsmiðstöðvar, fyrirtæki og skóla og flutt tónlist sína, oftast  ókeypis og án allra skuldbindinga.  Félag harmonikuunnenda á Suðurnesjum hefur sett mikinn svip á menningarlíf Suðurnesjamanna og fyrir það vill Reykjanesbær þakka.


Jóhann Smári Sævarsson
Jóhann Smári Sævarsson hóf söngnám við Tónlistarskólann í Keflavík á sínum tíma. Hann stundaði framhaldsnám við sameiginlega óperudeild Royal College of Music og Royal Academy of Music í London. Að námi loknu réði Jóhann Smári sig við Kölnaróperuna og var þar í þrjú ár. Jóhann var einnig fjögur ár á föstum samningi við óperuna í Regensburg. Jóhann hefur sungið sem gestasöngvari við fjölda óperuhúsa í Evrópu, Borgarleikhúsið í Reykjavík, Þjóðleikhúsið og Íslensku óperuna. Jóhann hefur sungið yfir 50 hlutverk á ferlinum og haldið ljóðatónleika hérlendis og erlendis. Jóhann Smári var tilnefndur sem rödd ársins 2010 til Íslensku tónlistarverðlaunanna, fyrir söng sinn í Vetrarferðinni og sem Hallgrímur í Hallgrímspassíu Sigurðar Sævarssonar. Árið 2008 hlaut Jóhann starfslaun listamanna í eitt ár og ákvað í kjölfarið að flytja heim til Íslands eftir margra ára dvöl erlendis og þá til Reykjanesbæjar og hóf að kenna söng í Söngskólanum, Söngskóla Sigurðar Demetz og Nýja Tónlistarskólanum í Reykjavík auk þess að sjá um raddþjálfun kórs Keflavíkurkirkju. Árið 2010 hóf Jóhann kennslu við Tónlistarskóla Reykjanesbæjar og tók við sem stjórnandi söngsveitarinnar Víkingarnir. Jóhann hefur verið meðlimur sönghópsins Orfeus frá stofnun hans. Jóhann hefur verið virkur í íslensku sönglífi frá því hann kom heim 2008, sungið flest aðal bassa hlutverk í Íslensku óperunni, sungið með Kammersveit Reykjavíkur, Caput hópnum, Óperukórnum í Reykjavík, Háskólakórnum, Sinfóníuhljómsveit Norðurlands og á Listahátíð svo eitthvað sé nefnt. Þá söng Jóhann í vor með sinfóníuhljómsveit Bayrum frá Noregi ásamt Óperukór Reykjavíkur á norskum tónleikum í Eldborgarsal tónlistarhússins Hörpu. Jóhann hefur verið iðinn við að leikstýra og hefur í tvígang leikstýrt sýningum Óp-hópsins í Reykjavík nú síðast í Iðnó 8. nóvember síðastliðinn.
Jóhann sá ásamt Arnóri Vilbergssyni um æfingar og framkvæmd tónleikanna List án landamæra í Reykjanesbæ síðastliðið vor og var listrænn stjórnandi hátíðartónleika Ljósanætur 2009 og 2010 þar sem atriði úr óperum og söngleikjum voru flutt sviðsett með hljómsveit. Vorið 2011 söng Jóhann með eiginkonu sinni Jelenu Raschke við undirleik móður sinnar Ragnheiðar Skúladóttur íslensk-rússneska tónleika í Bíósal Duushúsa. Jóhann var formaður Tónlistarfélags Reykjanesbæjar frá 2009 til 2011. Jóhann Smári er listrænn stjórnandi Norðuróps sem hefur staðið fyrir ótal tónleikum undanfarin ár og nú síðast fyrir óperuuppfærslu á Toscu sumarið 2011 í Keflavíkurkirkju þar sem atburðarásin fór fram í kirkjunni, safnaðarheimilinu og undir berum himni í garðinum þar á milli. Þar var Jóhann leikstjóri, leikmyndahönnuður, söngvari í aðalhlutverki og sá um alla framkvæmdastjórn líka. Eins og sjá má á þessari upptalningu hefur Jóhann Smári verið öflugur í menningarlífi Reykjanesbæjar og fyrir það vill menningarráðið þakka.

 

Eftirtaldir aðilar hafa áður hlotið menningarverðlaun Reykjanesbæjar.

1997  Birgir Guðnason (friðun gamalla húsa)
           Sigrún Hauksdóttir (aðstoð við myndlistarmenn)
           Ragnheiður Skúladóttir  (tónl.kennari og undirleikari)
           Keflavíkurverktakar (velvild og fjárhagslegur stuðningur)
1998  Guðleifur Sigurjónsson    (Byggðasafn og saga Keflavíkur)
           Sparisjóðurinn (velvild og fjárhagslegur stuðningur)
1999  Rúnar Júlíusson (efling tónlistar og kynning á bænum)
            Hitaveitan     ( velvild og fjárhagslegur stuðningur)
2000 Kjartan Már Kjartansson ( efling tónlistarlífs og alm. menningarmál)
            Kaupfélag Suðurnesja.   (velvild og fjárhagslegur stuðningur)
2001  Karen Sturlaugsson ( efling tónlistarlífs í bænum)
            Ný-ung (kaup og uppsetning á útilistaverki)
2002  Upphafshópur Baðstofunnar (efling myndlistarlífs í bænum)
            Hótel Keflavík  (stuðningur við Ljósanótt)
2003  Karlakór Keflavíkur  (efling tónlistarlífs í áratugi)
            Íslandsbanki (velvild og fjárhagslegur stuðningur)
2004  Hjördís Árnadóttir (efling menningarlífs, leikfélag og myndlistarfélag)
           Geimsteinn  (velvild og stuðningur við unga tónlistarmenn)
2005  Faxi (ómetanleg heimild um sögu og menningu í Reykjanesbæ)
           Nesprýði  (velvild og fjárhagslegur stuðningur)
2006 Grímur Karlsson (framlag til sögu sjávarútvegs á Íslandi)
           Flugstöð Leifs Eiríkssonar (velvild og fjárhagslegur stuðningur)
2007  Eiríkur Árni Sigtryggsson (framlag til myndlistar og tónlistar)
           Víkurfréttir ( kynning á menningarviðburðum)
2008  Kvennakór Suðurnesja (efling tónlistarlífs í bænum)
           Leikfélag Keflavíkur (efling leiklistarlífs í bænum)
2009  Tónlistarskóli Reykjanesbæjar ( efling tónlistarlífs í bænum)
2010  Gunnar Marel Eggertsson  (kynning á sögu þjóðveldistímans)
           Veitingastaðurinn Paddy ´s (efling tónlistarlífs í bænum)