Menningarverðlaun Reykjanesbæjar, Súlan árið 2012

Frá afhendingu Súlunnar.
Frá afhendingu Súlunnar.

Afhending Súlunnar, menningarverðlauna Reykjanesbæjar fyrir árið 2012, fór fram við hátíðlega athöfn í Listasal Duushúsa föstudaginn 16. nóv. sl. kl. 17.00.  Verðlaunin eru veitt þeim sem hafa unnið vel að menningarmálum í bæjarfélaginu og var þetta í sextánda sinn sem Súlan var afhent.  Að þessu sinni fékk Kór Keflavíkurkirkju Súluna fyrir framlag sitt til  eflingar tónlistarlífi í Reykjanesbæ. Verðlaunagripurinn er  hannaður og smíðaður af keflvísku listakonunni Elísabetu Ásberg og má þar sjá súluna, fuglinn úr bæjarmerki Reykjanesbæjar, gerða úr silfri.  Við sama tækifæri var fyrirtækjum og félagahópum sem styrktu Ljósanóttina, menningar og fjölskylduhátíð Reykjanesbæjar, þökkuð aðstoðin. Handhafa fyrri ára má sjá á vef Reykjanesbæjar.

Kór Keflavíkurkirkju var formlega stofnaður árið 1942 og hefur haldið uppi fjölbreyttu og öflugu tónlistarstarfi  í Keflavíkurkirkju frá þeim tíma eða alls í 70 ár. Fyrir stofnun kórsins sá óformlegur kór um sönginn og Keflavíkurkirkja hefur alltaf átt miklu láni að fagna með ráðningar organista og kórstjóra.  Alltaf hefur þar valist fagfólk sem hefur lagt metnað og fagmennsku í störf sín. Eftirtaldir hafa gegnt þessu embætti  í Keflavíkurkirkju: Marta Valgerður Jónsdóttir 1915-1918, Friðrik Þorsteinsson 1918-1964 en á því tímabili er kórinn einmitt formlega stofnaður, Geir Þórarinsson 1964-1977, Siguróli Geirsson 1977- 1989, Örn Falkner 1989-1991, Einar Örn Einarsson 1991-2001, Hákon Leifsson  2001-2008 og Arnór Vilbergsson frá árinu 2008. Starf organistans er ekki aðeins fólgið í því að spila við kirkjulegar athafnir. Hann þarf að æfa og stjórna kórnum, skipuleggja og undirbúa tónleikahald og síðast en ekki síst, sameina þá einstaklinga og hópa er iðka tónlist og koma fram í kirkjunni.  Núverandi organisti og kórstjóri er heimamaðurinn Arnór Vilbergsson og má segja að enn einu sinni hafi lánið leikið við Keflavíkurkirkju þar sem hér er á ferðinni ungur og metnaðargjarn atvinnumaður sem knýr tónlistarstarfið áfram af miklum krafti.
Í dag eru 50 félagar í Kór Keflavíkurkirkju og er það vel að geta státað af svo stórum kór.  Á undanförnum árum hefur kórinn ráðist í fjölmörg  stór verkefni sem of langt væri upp að telja en t.d. má nefna eftirfarandi verkefni sem kórinn hefur  tekist á við undir  stjórn Arnórs . Þetta eru Inneggiamo úr Cavelleria Rusticano, Lacrimosa úr Requiem eftir Mozart og  Jólaóratória eftir Saint-Säins auk fjölda laga sem flutt hafa verið við hin ýmsu tækifæri.  Á þessu 70 ára afmælisári kórsins var ákveðið að gefa út geisladisk og kom hann út í júlí sl., diskurinn heitir  “Vor Kirkja” og inniheldur hann bæði veraldlegt og andlegt efni.  Upptökur fóru fram í Stapanum í mars á þessu ári.  Arnór hefur nýtt   heimafólk eins og kostur er og  raddþjálfun kórsins er t.d. í höndum heimamanna en þar eru á ferðinni bassasöngvarinn Jóhann Smári Sævarsson og sópran söngkonan Bylgja Gunnarsdóttir.

En góður kór og góður kórstjórnandi þurfa gott hljóðfæri.  25. febrúar árið 1967 var 26 radda pípuorgel  keypt til kirkjunnar og vígt og leysti það af hólmi 6 radda pípuorgel  sem fyrir var. Söfnun fyrir hljóðfærinu hafði þá staðið yfir frá árinu 1918 eða í tæplega 50 ár.  Í dag,  43 árum, seinna þjónar þetta fyrsta pípuorgel kirkjunni ennþá en þess má geta að nú er farið að huga að kaupum á nýju orgeli og hefur verið stofnaður sérstakur sjóður ætlaður orgelkaupunum.  Það hefur ekki verið venja að útdeila peningagjöfum með menningarverðlaununum en nú var sú undantekning gerð að úr menningarsjóði Reykjanesbæjar voru veittar krónur 150 þúsund í orgelsjóð með þeirri ósk að ekki taki hálfa öld að safna fyrir nýju hljóðfæri.

Formaður menningarráðs, Björk Þorsteinsdóttir afhenti verðlaunin og forseti bæjarstjórnar, Böðvar Jónsson þakkaði fyrirtækjum og hópum stuðninginn við Ljósanótt.