Taktu þátt í að móta menntastefnu Reykjanesbæjar

Mótun menntastefnu
Mótun menntastefnu

Reykjanesbær vinnur nú að því að uppfæra menntastefnu sína sem er frá árinu 2016. Stefnunni er ætlað að vera heildarmynd og innblástur fyrir leik- og grunnskóla auk íþrótta- og tómstundastarfs bæjarins þar sem menntun og velferð barna og ungmenna er höfð að leiðarljósi.

Á vormánuðum hófst vinna stýrihóps verkefnisins sem samanstendur af fulltrúum ýmissa hagsmunahópa og er áætlað að henni ljúki í desember 2020. Markmiðið er að ná breiðri samstöðu um mikilvægustu markmiðin til lengri og skemmri tíma í menntamálum. Til að það takist er nauðsynlegt að fá sem flesta að borðinu og ná fram ólíkum sjónarmiðum.

Reykjanesbær óskar því eftir hugmyndum íbúa um áhersluþætti nýrrar menntastefnu í gegnum vefinn betrireykjanesbaer.is. Auk nýrra hugmynda er hægt að taka þátt með því að líka við framkomnar hugmyndir og/eða setja inn rök með eða á móti. Einnig er val um hvort einstaklingar koma fram undir nafni.
Allir íbúar og hagsmunaaðilar skólasamfélagsins eru hvattir til að deila hugmyndum á samráðsvefinn og taka með því þátt í að móta áherslur Reykjanesbæjar í menntamálum á komandi árum. Hugmyndagáttin er opin til og með 30. október 2020.