Mikil gleði á jólaballi fólks með fötlun á Ránni

Góð þátttaka og mikil gleði var á jólaballi fólks með fötlun sem Björn Vífill Þorleifsson veitingamaður á Ránni og Kjartan Már Kjartansson bæjarstjóri Reykjanesbæjar buðu til í gær á Ránni.

Guðbrandur Einarsson forseti bæjarstjórnar og tónlistarmaður hélt uppi stuðinu í félagi við Kjartan Má sem greip í fiðluna á milli dansa. Sungið var og dansað kringum jólatréð og þegar veitingar voru bornar fram komu góðir gestir til að skemmta, Rauðhetta og úlfurinn frá Leikfélagi Keflavíkur en sýningum á Rauðhettu lauk nýverið og Sissa, Sesselja Ósk Stefánsdóttir 9 ára stúlka úr Reykjanesbæ sem mun syngja á jólatónleikum Björgvins Halldórssonar nk. laugardag.

Heimsókn jólasveina vekur alltaf lukku og sú var einnig raunin í gær. Þeir voru reyndar svolítið blautir á bak við eyrun blessaðir og það þurfti að kenna þeim ýmislegt áður en þeir gátu tekið þátt í dansinum kringum jólatréð, en þeim var fyrirgefið, sérstaklegar þegar gestir sáu hvað leyndist í pokanum þeirra.

Á Facebook síðu Reykjanesbæjar má sjá skemmtilegar myndir frá jólaballinu.