Mikilvægt að hér séu iðnmenntaðir einstaklingar

Málmsmíði er ein þeirra greina sem nemendur geta kynnt sér. Hér er verið að sjóða saman tenging.
Málmsmíði er ein þeirra greina sem nemendur geta kynnt sér. Hér er verið að sjóða saman tenging.

Í dag hófst verkefnið Látum verkin tala – Verknámssmiðjur í FS í samstarfi Reykjanesbæjar og Fjölbrautaskóla Suðurnesja. Markmið verkefnisins er að kynna og vekja áhuga nemenda sem voru að ljúka 9. bekk grunnskóla á verknámi. Nemendur úr vinnuskólanum í Sandgerði gátu einnig valið um verknámssmiðjur, en verkefnið vakti athygli þar í bæ. Í heimsókn í skólann í morgun lýstu bæði nemendur og kennararnir ánægju með verkefnið.

Verknámssmiðjurnar eru hluti af vinnuskólanum þar sem nemendum bauðst kostur á að velja smiðjur í háriðn, textíl, rafmagni, húsasmíði og/eða málmsuðu þegar þeir skráðu sig í vinnuskólann fyrr á þessu ári. Nemendur fá að vinna verkefni sem tengjast áðurnefndum iðngreinum og fá þar með innsýn í fjölbreytt iðnstörf. Með þessum hætti er vonast til að nemendur geti enn frekar valið námsleiðir eftir sínu áhugasviði. Íslenskir aðalverktakar, Isavia og Verslunarmannafélag Suðurnesja styrkja verkefnið og vilja fyrirtækin með því styðja við kynningu á iðn- og verknámi. Án þeirra stuðnings hefði verkefnið líklega ekki orðið að veruleika.

Helga María Finnbjörnsdóttir fulltrúi Beinnar leiðar í fræðsluráði lagði þessa tillögu fram í ráðinu í apríl árið 2016, sem síðan var samþykkt í bæjastjórn. Ekki tókst að framkvæma hugmyndina í fyrrasumar, en nú er hún komin í framkvæmd og á vonandi eftir að dafna enn frekar. Helgu Maríu finnst mikilvægt að stutt sé við iðn- og verknám enda njóti samfélagið allt góðs af því að hér séu iðnmenntaðir einstaklingar sem geti unnið þessi störf.

Hér er verið að læra að djúpnæra hár

Í textíl voru strákanir að læra að sníða utan á gínu

Í trésmiði var verið að smíða hátalara