Næst lægsta gjaldið hjá Fimleikadeild Keflavíkur

Frá fimleikadeildinni.
Frá fimleikadeildinni.

Í nýlegri könnun sem Verðlagseftirlit ASÍ gerði á æfingagjöldum í fimleikum  hjá  15 félögum kemur í ljós að í ákveðnum aldursflokkum er næst lægsta gjaldið hjá Fimleikadeild Keflavíkur.

Í flokki barna undir átta ára sem æfa um 2 klukkustundir á viku er gjaldið hæst hjá Gerplu um 40 þúsund krónur en næst lægst hjá Keflavík rúmar 19 þúsund krónur. Hjá börnum 8-10 ára er gjaldið hæst hjá Gerplu rúmar 54 þúsund krónur en fimmta lægst hjá Keflavík um 31 þúsund krónur.

Tekinn var saman kostnaður frá hausti og fram að jólum eða í 4 mánuði.  Ekki var tekið tillit til þess hvaða tegund fimleika sé verið að æfa. Öll félögin eiga það sameiginlegt að setja saman gjaldskrá eftir fjölda klukkustunda sem æft er í viku hverri.

Það ber að athuga að hér er aðeins um verðsamanburð að ræða og sú þjónusta eða dagskrá sem í boði er á námskeiðum íþróttafélaganna er ekki metin. Verðlagseftirlitið tekur heldur ekki tillit til safnanna sem íþróttafélögin standa fyrir og eða styrkja frá sveitarfélögum, hvorki æfingagallar né keppnisgjöld eru með í gjaldinu sem borið er saman.

Ragnar Örn Pétursson  Íþróttafulltrúi Reykjanesbæjar