Nýr kafli í atvinnusögu Íslendinga

Nýr kafli var skrifaður í atvinnusögu Íslendinga þegar starfssemi hófst með formlegum hætti hjá Verne Global gagnaverinu, fyrsta gagnaveri landsins. Oddný Harðardóttir, fjármálaráðherra og Árni Sigfússon, bæjarstjóri Reykjanesbæjar, klipptu á borða með Jeff Monroe, forstjóra Verne Global í Víkingaheimum í gær. 

Gagnverið er í 500 fermetra rými sem Varnarliðið áður nýtti fyrir verslun og aðra starfssemi en bygging  húsnæðisins hefur staðið yfir frá árinu 2008 og þar starfa um 15 manns. Í fyrsta áfanga sem byggður hefur verið á svæði Verne Global er pláss fyrir fimm þúsund netþjóna. Gagnaverið er fyrsti áfangi uppbyggingar á alþjóðlegri miðstöð gagnavera á Ásbrú sem knúin verða af endurnýjanlegum orkugjöfum. Það er líka sérhannað til þess að nýta vindkælingu á svæðinu sem sparar gríðarlegt magn af orku. Það er því hægt að segja að gagnaverið sé umhverfisvænn hátækniiðnaður.

Verne Global áformar að ganga út á markvissa stækkun og árið 2017 verði gagnaverið fullbúið í fjórum byggingum. Þegar rekstur verði kominn á fullan skrið sé reiknað með að 100 störf skapist hjá fyrirtækinu. Fyrsti viðskiptavinur Verna Global er bandaríska fyrirtækið Datapipe en það sérhæfir sig í umhverfisvænum lausnum í upplýsingatækni. Umhverfisstofnun Bandaríkjanna hefur veitt fyrirtækinu viðurkenningu vegna umhverfisstefnu þess og forstjóri Datapipe, Robb Allen, segir Verne Global gefa fyrirtækinu kost á því að halda áfram forystu í umhverfismálum. 

Jeff Monroe sagði við vígsluna að þrátt fyrir að stuttu eftir ákvörðun um að hefja starfssemi á Íslandi, hafi komið efnahagskreppa og tvö eldgos hefði það ekki stöðvað þá og nú, rúmum fjórum árum síðar, væri stóra stundin runnin upp. 

Víkurfréttir greina frá þessu.