Nýr vefur Reykjanesbæjar kominn í loftið

Skjámynd af nýjum vef Reykjanesbæjar.
Skjámynd af nýjum vef Reykjanesbæjar.

Nýr vefur Reykjanesbæjar hefur nú litið dagsins ljós á léninu reykjanesbaer.is. Vefurinn er fyrst og fremst þjónustuvefur fyrir íbúa, starfsfólk, fréttamiðla og þá sem vilja kynna sér bæjarfélagið, m.a. með búsetu í huga.

Fyrri vefur Reykjanesbæjar var tekinn í notkun árið 2010 og var orðinn tæknilega úreltur, m.a. var hann ekki skalanlegur í snjalltækjum sem eru þau tæki sem fólk notar í meira mæli en áður. Ekki var hægt að gera breytingar á fyrri vef án mikils kostnaðar. 

Í upphafi árs var gengið til samstarfs við Sjá viðmótsprófanir ehf. vegna þarfagreiningar, kröfulýsingar og verðkönnunar. Sex hugbúnaðarfyrirtækjum var boðið að taka þátt í verðkönnun, fimm tóku þátt.  Að undangengnum kynningum og fundum með forsvarsmönnum fyrirtækjanna var ákveðið að ganga til samstarfs við Stefnu hugbúnaðarhús. Auk þess að bjóða lægsta verðið, svaraði fyrirtækið öllum kröfulýsingum ítarlega og af nákvæmni, fyrirtækið stóðst allar kröfur sem gerðar voru í kröfulýsingu og hefur staðist væntingar í öðrum viðskiptum við Reykjanesbæ.

Stefna hugbúnaðarhús hannaði nýja safnavefi fyrir Reykjanesbæ, sem tekinn var í notkun sl. haust. Auk vefjar um öll söfn og viðburði í Reykjanesbæ hannaði Stefna einnig vefi Bókasafns Reykjanesbæjar og Byggðasafns Reykjanesbæjar. Vefirnir eru á slóðinni https://sofn.reykjanesbaer.is

Vefur Akraneskaupstaðar frá Stefnu hugbúnaðarhúsi var valinn bestu vefur sveitarfélags 2015 í úttektinni Hvað er spunnið í opinbera vefi og framkvæmd er árlega.  Hér má skoða vef Akraneskaupstaðar.