Nýtt hjúkrunarheimili í Reykjanesbæ

Nú hillir undir að nýtt hjúkrunarheimili rísi í Reykjanesbæ en stór áfangi í þeirri vegferð varð að veruleika í morgun þegar útboð á aðalhönnuði var birt á útboðsvef Evrópska efnahagssvæðisins. Upphaf þessa verkefnis má rekja til 2020 þegar heilbrigðisráðherra og bæjarstjóri Reykjanesbæjar skrifuðu undir samning þess efnis að byggja ætti nýtt 60 rýma hjúkrunarheimili við núverandi hjúkrunarheimili.

Af ýmsum ástæðum hafa tafir orðið á þessu verkefni en með þessum áfanga nú er hægt að tala um að þetta verkefni sé hafið í raun. Hugmyndir Reykjanesbæjar frá fyrstu tíð hafa snúið að því að samnýta bæri húsnæði og rekstur og þar með ná fram hagræðingu. Væntanleg nýbygging sem hýsa mun hjúkrunarheimilið verður um 3.900 fermetrar á þremur hæðum en ljóst er að til viðbótar þarf að byggja einhverjar tengibyggingar við núverandi heimili.

Með nýju hjúkrunarheimili eykst fjöldi hjúkrunarrýma í Reykjanesbæ um 30 en fyrirhugað er að leggja niður starfsemi á Hlévangi þegar þessi stækkun verður að veruleika. Áætlað er að framkvæmdir hefjist að lokinni hönnun og útboði framkvæmda sem gæti orðið seinni hluta 2022. Ef allt gengur að óskum verða nýju hjúkrunarrýmin tekin í notkun fyrir árslok 2024.