Ódýrar almenningssamgöngur í Reykjanesbæ

Kjartan Már Kjartansson bæjarstjóri, Joseph Feyen eigandi Hopp í Reykjanesbæ og Guðlaugur H. Sigurj…
Kjartan Már Kjartansson bæjarstjóri, Joseph Feyen eigandi Hopp í Reykjanesbæ og Guðlaugur H. Sigurjónsson sviðsstjóri umhverfissvið

Nú hefur deilileiga fyrir rafskútur í Reykjanesbæ verið opnuð undir merkjum Hopp en það er Keflvíkingurinn Joseph Feyen sem er að opna reksturinn hér í bænum. Farið verður af stað með 50 rafskútum, en þessar rafskútur eru þær sömu og hafa þeyst um götur Reykjavíkur. Hopp er umhverfisvænt fyrirtæki og kýs að endurnýta rafskúturnar eins og kostur er. Hafa þær því verið endurnýjaðar og lagfærðar og munu gera íbúum Reykjanesbæjar kleift að hoppa leiðar sinnar.

Fyrir þá sem ekki vita er Hopp íslenskt fyrirtæki sem býður upp á þjónustu þar sem hægt er að leigja rafskútur innan ákveðins þjónustusvæðis. Notendur aflæsa rafskútunum með appi og geta síðan keyrt um á þeim gegn vægu gjaldi. Þegar ferðinni er lokið er hægt að leggja rafskútunni hvar sem er innan þjónustusvæðis. Þjónustusvæðið nær yfir Keflavík, Ásbrú sem og Innri-  og Ytri Njarðvík. Líkt og í Reykjavík mun Hopp í Reykjanesbæ sjá til þess að þjónustan gagnist heimamönnum fyrst og fremst. Markmiðið er að bjóða einstaklingum upp á umhverfisvænan, ódýran og handhægan ferðamáta til þess að komast leiðar sinnar á svæðinu.

Við viljum biðja notendur þjónustunnar um að fara varlega og fylgja umferðarlögum. Einnig er mælt eindregið með því að fólk noti hjálma á meðan hoppað er um götur bæjarins. Við vonum að þessi þjónusta verði kærkomin viðbót við litríkt og skemmtilegt bæjarlíf Reykjanesbæjar.