Opið fyrir umsóknir í Aðventugarðinn 2025

Viltu selja eða koma fram?

Undirbúningur fyrir fallega Aðventugarðinn okkar í Reykjanesbæ er nú kominn á fullt skrið. Markmiðið með garðinum er að lýsa upp svartasta skammdegið og skapa hlýja og notalega stemningu á aðventunni fyrir jólabörn á öllum aldri.

Aðventugarðurinn verður opinn frá kl. 14:00-17:00 laugardaga og sunnudaga frá 6.-21. desember auk kvöldopnunar á Þorláksmessu frá kl. 18-21, með fyrirvara um breytingar. Þá er undirbúningur fyrir opnun Aðventusvellsins einnig farinn af stað og því má búast við líflegri stemningu og fjölbreyttri dagskrá.

Við leitum nú að söluaðilum í jólakofana okkar- einstaklingum, félögum og fyrirtækjum sem vilja leggja sitt af mörkum til jólastemningar með fallegum eða bragðgóðum vörum sem tengjast jólunum með einum eða öðrum hætti. Sérstök áhersla er lögð á gæði og fjölbreytni, hvort sem um er að ræða handverk, matvöru eða aðra gjafavöru.

Við hvetjum einnig listafólk,hópa og áhugasama einstaklinga til að sækja um að standa fyrir dagskrá, tónlist, uppákomum eða viðburðum sem gleðja gesti Aðventugarðsins.

Umsóknarfrestur er til og með 26.október.

Við hlökkum til að skapa saman einstaka jólastemningu í Aðventugarðinum!


Nánar um sölukofa

Hægt er að sækja um aðstöðu í sölukofa fyrir eina eða fleiri helgar, ekki fyrir staka daga. Leiguverð fyrir helgi er kr. 7.000.

Sölukofarnir eru 4-5 m2 að stærð og útbúnir með rafmagni og hita, ásamt einfaldri jólaskreytingu að utan. Söluaðilar eru sjálfir hvattir til að huga að fallegri og jólalegri framsetningu á söluvarningi og til að skapa skemmtilega stemningu í kofunum.

Innifalið í leigu er allur kostnaður við uppsetningu, rekstur kofanna og þrif á svæðinu. Auk þess verður boðið upp á skemmtidagskrá í Aðventugarðinum sem laðar að gesti og jafnframt verður Aðventugarðurinn kynntur með ýmsu móti.

Sérstök athygli er vakin á því að sú ábyrgð hvílir á söluaðilum að uppfylla þau lög og reglur sem um söluvarninginn kann að gilda. Einnig er söluaðilum bent á að þeir eru sjálfir ábyrgir fyrir sínum vörum og þátttöku í verkefninu.

Tímabil
6.-7. desember
13.-14. desember
20.-21. desember
23.desember