- Þjónusta
- Velferð og stuðningur
- Menntun og fræðsla
- Skipulags-, bygginga- og umhverfismál
- Íþróttir og tómstundir
- Stjórnsýsla
- Mannlíf
- Mitt Reykjanes
Forseti Íslands Guðni Th. Jóhannesson og frú Eliza Reid koma í opinbera heimsókn til Reykjanesbæjar á fimmtudaginn, 2. maí. Þann dag og á föstudaginn 3. maí heimsækja þau fjölmarga staði í sveitarfélaginu, svo sem skóla og menningarsetur, söfn, stofnanir og fyrirtæki, auk þess sem forseti setur Listahátíð barna. Klukkan 17:30 á fimmtudaginn verður menningarhátíð í Stapanum, sem opin er almenningi, og þar verða flutt tónlistaratriði í boði Reykjanesbæjar og boðið upp á kaffiveitingar.
Forsetahjónin munu á fimmtudaginn heimsækja Duus Safnahús og vera viðstödd setningu Listahátíð barna í Reykjanesbæ þar klukkan 10:00. Því næst verður haldið í ráðhús bæjarins þar sem hjónin munu eiga samverustund með börnum og barnafólki í bókasafninu auk þess að ræða við starfsmenn bæjarfélagsins. Í hádeginu heimsækja forsetahjónin Fjölbrautaskóla Suðurnesja og Heilbrigðisstofnun Suðurnesja. Þá má nefna heimsóknir í Skólamat, Dósasel og Miðstöð símenntunar á
Suðurnesjum auk þess sem forsetahjónin hitta íþróttaiðkendur í Reykjaneshöllinni, kynna sér Rokksafnið og koma við í Tónlistarskólanum í Hljómahöllinni. Loks munu forsetahjónin sækja málstofu í Hljómahöllinni um „Framtíð í nágrenni Alþjóðaflugvallar“ þar sem rætt verður um þróun og atvinnutækifæri á svæðinu.
Á föstudaginn heimsækja forsetahjónin ýmis fyrirtæki á Ásbrú, svo sem Geosilica, Algalíf, Hæfingastöðina og Keili, en í hádeginu fara þau í Háaleitisskóla og blanda þar geði við starfsmenn og nemendur. Eftir innlit í Bardagahöllina lýkur heimsókninni á Nesvöllum þar sem forsetahjónin munu eiga stund með eldri borgurum Reykjanesbæjar á Léttum föstudegi sem hefst kl. 14:00.
Þeir sem hafa áhuga á því að vera viðstödd móttöku forsetahjónanna er velkomið að koma á þá opinberu viðburði sem hér eru nefndir.
Kl. 09:00 – 15:00 virka daga (mán.-fös.)