Orkurannsóknir Keilis mæla loftgæði í Helguvík, Leiru og Mánagrund

Frá Orkurannsóknum Keilis á Ásbrú.
Frá Orkurannsóknum Keilis á Ásbrú.

Orkurannsóknir ehf. hafa sett upp vefsíðu þar sem fylgst er með loftgæðum á þremur mælistöðvum í kringum athafnasvæðið í Helguvík. Mælistöðvarnar eru staðsettar á Leirunni, í Helguvík og við Mánagrund í Reykjanesbæ.

Mælistöðvar í Helguvík og Leirunni eru búnar sjálfvirkum veðurathugunarstöðvum sem mæla loftþrýsting, hitastig, vindhraða og vindáttir. Þar er einnig mælt svifryk ásamt köfnunarefnisoxíð (NO), köfnunarefnisdíoxíð (NO2) og brennisteinsdíoxíð (SO2), en á Mánagrund er einungis mælt brennisteinsdíoxíð.

Á vefsíðunni eru birtar síðustu mælingar frá hverri mælistöð í töflum. Þar eru einnig „mælar“ sem sýna grafískt sumar af þeim breytum sem eru í töflunni. Þessir mælar hafa litamerkingar sem eru meira til gamans og vísa ekki til þeirra marka sem skilgreind eru í reglugerðum. Þá er komin upplýsingasíða um svifryk sem gestir geta notað til að túlka mælingarnar með tilliti til reglugerða og umhverfisáhrifa. Sambærileg síða um gasefni kemur síðar.

Notendur geta halað niður mælingum frá 1. júní 2016 og unnið með í Excel eða öðrum hugbúnaði sem les CSV skrár. Eldri mælingar eru til og verða gerðar aðgengilegar innan tíðar.

Um Orkurannsóknir Keilis

Orkurannsóknir ehf. er sjálfstætt starfandi eining innan Keilis sem heldur utan um rekstur sérhæfðrar rannsóknaraðstöðu í húsnæði Keilis og veitir tilsvarandi rannsóknarþjónustu og ráðgjöf fyrir atvinnulíf í nærumhverfinu.

Þjónusta Orkurannsókna er til dæmis á sviði efnagreininga, rannsókna á endurnýjanlegri orku og sjálfstýringartækni ásamt ýmiskonar sérhæfðri þjónustu sem gagnast nýsköpunarfyrirtækjum og þróunar- og hátækniiðnaði. Auk þess geta hátækni- og sprotafyrirtæki nýtt eða leigt aðstöðu Orkurannsókna til eigin rannsókna og þróunarvinnu.

Orkurannsóknir vinna í nánu samstarfi við tæknifræðinám Háskóla Íslands og Keilis en öll tilrauna- og verkefnavinna nemenda fer fram í aðstöðu þess í aðalbyggingu Keilis. Þá hafa nemendur möguleika á að vinna lokaverkefni sín í samstarfi við og með aðstöðu hjá Orkurannsóknum og hafa sprotafyrirtæki líkt og GeoSilica Iceland sprottið upp úr slíkum verkefnum.

Ein mælistöð er á hverjum stað