Óskað eftir stækkun Heilsuleikskólans Skógaráss

Horft eftir húsnæði Skógaráss og útileikskvæði.
Horft eftir húsnæði Skógaráss og útileikskvæði.

Fræðsluráð tók á fundin sínum þann 27. september fyrir erindi frá Skólum ehf. sem er rekstraraðili leikskólans Skógaráss á Ásbrú, þar sem óskað er eftir viðræðum við Reykjanesbæ um stækkun skólans. Þá yrði hægt að taka yngri börn inn á leikskólann en nú er gert.

Í málefnasamningi Samfylkingar, Beinnar leiðar og Framsóknarflokks 2018-2022 er ákvæði um að stefnan sé sett á öll börn komist í leikskóla við 18 mánaða aldur. Í fundargerð fræðsluráðs kemur fram að Reykjanesbær stefni að stækkun leikskóla í bæjarfélaginu í þeim hverfum þar sem öll leikskólapláss séu nýtt, „til þess að geta boðið 18 mánaða börnum pláss.“ Fundargerð fræðsluráðs var samþykkt á síðasta bæjarstjórnarfundi án umræðu. Fræðslusvið hefur nú tekið boltann og mun eiga í viðræðum við Skóla ehf. um mögulegar leiðir til þess að bjóða 18 mánaða börnum leikskólavist

Leikskólinn Skógarás hefur verið starfræktur í rúmt ár. Skólinn var áður Heilsuleikskólinn Háaleiti, en var fluttur yfir að Skógarási 932 fyrir rúmu ári síðan. Skólinn var strax fullsetinn. Forsaga Heilsuleikskólans Skógaráss er sú að sumarið 2017 færðu fasteignafélögin Heimavellir og Ásbrú íbúðir Reykjanesbæ að gjöf húsnæðið við Skógarbraut 932. Húsið var áður samkomuhús á gamla varnarsvæðinu en þótti nýtast vel undir leikskóla. Byggt var við húsið og það lagað að leikskólastarfi. Það þykir hafa tekist vel eins og fram kom við vígslu Skógaráss í september 2018.