Óvissustig vegna jarðskjálfta

Ríkislögreglustjóri í samráði við lögreglustjórann á Suðurnesjum hefur lýst yfir óvissustigi Almannavarna vegna jarðskjálftahrinu á Reykjanesskaga. Aukin jarðskjálftavirkni hefur verið síðustu daga og hafa margir skjálftar yfir fjóra mælst um helgina og einn yfir fimm.

Íbúar eru hvattir til þess að huga að lausa- og innanstokksmunum sem geta fallið við jarðskjálfta og huga sérstaklega að því að ekki geti fallið lausamunir á fólk í svefni. Veðurstofa Íslands hefur einnig vakið athygli á því að grjóthrun og skriður geti farið af stað í brattlendi og því er gott að sýna aðgát við brattar hlíðar

Nánar um óvissustig

Óvissustig almannavarna þýðir að aukið eftirlit er haft með atburðarás sem á síðari stigum gæti leitt til þess að heilsu og öryggi fólks, umhverfis eða byggðar verði ógnað. Að lýsa yfir óvissustigi er hluti af verkferlum í skipulagi almannavarna til að tryggja formleg samskipti og upplýsingagjöf á milli viðbragðsaðila. Á óvissustigi fara viðbragðsaðilar og stofnanir yfir áætlanir sínar og viðbúnað. Rétt er að geta þess að tjón á munum og eignum er tilkynnt á vefsíðu Náttúruhamfaratrygginga Íslands. Ef slys hafa orðið á fólki er það tilkynnt til 112.

Við viljum minna íbúa innan áhrifasvæðis skjálftanna að kynna sér vel að viðbrögð við jarðskjálftum og varnir gegn þeim sem finna má á vef Almannavarna.

Jarðskjálftar á Reykjanesskaga síðustu daga (skjámynd af map.is frá 1. ágúst).

Rýmingaráætlun Reykjanesbæjar

Í skipulagi almannavarna er rýming hluti af mótvægisaðgerðum til að draga úr áhrifum hættu á samfélag og íbúa þess, áður en neyðarástand á sér stað eða á meðan neyðarástand varir. Það felur í sér að íbúar flytja á öruggari stað og síðan að þeir komist öruggir heim aftur í lok neyðarástands.

Þeir aðilar sem unnu áætlunina eru frá Umhverfissviði Reykjanesbæjar, Brunavörnum Suðurnesja, Lögregluembættinu, Almannavarnadeild ríkislögreglustjóra, Slysavarnardeild Landsbjargar og Björgunarsveit Suðurnesja

Til að rýming gangi vel fyrir sig er mikilvægt að til sé áætlun um framkvæmd rýminganna. Ríkislögreglustjóri gefur fyrirmæli um brottflutning fólks af hættusvæði og hér má sjá ferlið á rýmingaráætluninni.

Smelltu hér til að sjá rýmingaráætlunina