Pistill frá Bæjarstjóra 3. apríl 2020

Kjartan Már Kjartansson bæjarstjóri Reykjanesbæjar
Kjartan Már Kjartansson bæjarstjóri Reykjanesbæjar

Kæru íbúar Reykjanesbæjar

Starfsemi Reykjanesbæjar hefur verið með breyttu sniði síðastliðnar vikur eins og hjá flestum öðrum fyrirtækjum og stofnunum vegna þess heimsfaraldar sem nú geisar. Við höfum öll þurft að aðlaga okkar daglega líf í baráttunni við veiruna í takt við það samkomubann sem nú er í gildi og hefur verið framlengt til 4. maí.

Veiran hefur heimsótt okkar sveitarfélag líkt og öll önnur. Í dag hafa 43 staðfest smit komið upp í Reykjanesbæ og 7 aðilar þegar náð bata. Í sóttkví eru 262. HSS er að taka 35 – 40 sýni á dag og hafa um 8 % þeirra reynst smitaðir að meðaltali.

Starfsemi bæjarins hefur gengið vel. Skólastarf hefur náð ákveðnu jafnvægi eftir aðlögun og mun halda áfram með samskonar sniði eftir páska. Velferðarþjónusta á vegum Reykjanesbær hefur tekið breytingum en áhersla lögð á að halda upp órofa starfsemi með áherslu á viðkvæma hópa. Menningarhúsin hafa nýtt rafræna miðla og streyma til okkar tónleikum og annarri list og menningu af kappi við jákvæðar undirtektir.

Við tökum stöðuna á hverjum degi í takt við tilmæli frá þríeykinu Víði, Þórólfi og Ölmu og gerum okkar besta til að veita áfram þjónustu þar sem því er við komið. Við leggjum jafnframt áherslu á að miðla upplýsingum og breytingum á þjónustu fljótt og örugglega til bæjarbúa á heimasíðu sveitarfélagsins www.reykjanesbaer.is

Það eru krefjandi tímar fram undan, við vitum það öll. Í Reykjanesbæ mælist nú 17% atvinnuleysi sem er það mesta á landinu.  Ég er sannfærður um að við komumst í gegnum þetta saman og munum ná okkur á strik fyrr en síðar. Undirbúningur við að reisa okkar góða samfélag við er þegar hafinn og erum við í samstarfi við fjölmarga góða aðila í því krefjandi verkefni. Á næstunni mun ég senda frá mér reglulega pistla til að upplýsa um stöðu mála og þau framtíðaráform sem eru á teikniborðinu. 

Ég vona að þið eigið góða helgi og tek undir með Víði Reynissyni og hvet ykkur til að gera eitthvað skemmtilegt innanhús um helgina.

Bestu kveðjur,

Kjartan Már Kjartansson.