Pistill frá bæjarstjóra - toppnum náð

Kjartan Már Kjartansson bæjarstjóri Reykjanesbæjar
Kjartan Már Kjartansson bæjarstjóri Reykjanesbæjar

Á blaðamannafundi ríkisstjórnarinnar þ. 14. apríl voru fyrstu tilslakanir á samkomubanninu kynntar en þær munu taka gildi þann 4. maí næstkomandi. Samkvæmt þeim mun eitt og annað breytast hér hjá okkur hér í Reykjanesbæ eins og öðrum. Skólahald fer aftur til fyrra horfs og verður með eðlilegum hætti að undanskildum íþróttum innanhúss og sundi en íþróttaæfingar utanhúss verða heimilar. Ýmis önnur þjónusta á vegum opinberra aðila mun opna á ný og verða allar breytingar kynntar nánar þegar þar að kemur. Áfram verður þó mikilvægt að gæta fyllsta öryggis og virða regluna um tveggja metra bil á milli fólks.

Því miður verður ekki hægt að halda Listahátíð barna með sama sniði og undanfarin ár vegna fjöldatakmarkanna sem miða við hámark 50 einstaklinga en verkefnastjóri menningarmála og starfsfólk fræðslusviðs er að skoða aðra möguleika. Sama má segja með hátíðarhöld á 17. júní. Ljóst er að þau geta ekki farið fram með sama sniði og undanfarin ár en verið er að skoða hvort hægt sé að útfæra dagskránna með öðrum hætti. Eins og staðan er núna er gæti verið möguleiki að halda Ljósanótt hátíðlega fyrsta laugardag í september þar sem bann við samkomum og útihátíðum þar sem fleiri en 2.000 manns koma saman nær til loka ágúst. Tíminn verður þó að leiða það í ljós.   

Annars hafa hlutirnir gengið vel í Reykjanesbæ. Einhver smit hafa komið upp á Suðurnesjum en fer fækkandi eins og annars staðar á landinu. Margt starfsfólk í framlínustörfum hefur staðið vaktina og lagt sitt af mörkum til að verja þá sem eru í viðkvæmri stöðu og vil ég ítreka þakkir okkar til þeirra.

Nú er bara að vona að orð og vonir Þórólfs sóttvarnalæknis, um að toppnum sé náð, standist og að ekki verið bakslag þegar tilslakanir hefjast. Hvert og eitt okkar hefur mikið um að segja hvernig til tekst. Ef við höldum vöku okkar áfram, þvoum og sprittum hendur, sleppum því að heilsa og knúsa hvort annað og virðum tveggja metra regluna ætti okkur að farnast vel.

Flugumferð verður áfram takmörkuð og atvinnuleysi á okkar svæði talsvert af þeim sökum þrátt fyrir mótvægisaðgerðir ríkis og sveitarfélaga. Vonandi náum við samt að hámarka árangur mótvægisaðgerðanna og draga úr atvinnuleysi. Við erum bjartsýn á að frekari aðgerða sé að vænta á okkar svæði þegar ríkisstjórnin kynnir næstu aðgerðir sínar.

Tökum vorinu og lóunni fagnandi með bros á vör og sól í sinni.

Kær kveðja,
Kjartan Már Kjartansson