Ráðið í stöður sviðsstjóra hjá Reykjanesbæ

Gengið hefur verið frá ráðningu fimm sviðsstjóra hjá Reykjanesbæ auk hafnarstjóra. Alls bárust 73 umsóknir um störfin en fjórir umsækjendur drógu umsóknir sína til baka meðan á ferlinu stóð.

Hlutverk nýrra sviðsstjóra Reykjanesbæjar er að leiða svið bæjarins og vinna með bæjarstjóra og kjörnum fulltrúum að úrbótum og breytingum sem framundan eru og eru til þess fallnar að auka gæði og skilvirkni stjórnsýslunnar, flýta afgreiðslu mála, tryggja úrbætur á verklagi og verkaskiptingu.  

Tveir fyrrum framkvæmdastjórar verða í sviðsstjórahópnum og einn til viðbótar sem hefur sinnt stöðunni tímabundið. Í öðrum stöðum eru nýir stjórnendur hjá Reykjanesbæ sem öll eiga það þó sameiginlegt að hafa víðtæka þekkingu og reynslu bæði á sviði sveitastjórnarmála og utan þeirra.

Hera Ósk Einarsdóttir  Helgi Arnarson  Guðlaugur Helgi Sigurjónsson  Ásbjörn Jónsson  Þórey I Guðmundsdóttir  Halldór Karl Hermannsson

Nýju sviðsstjórarnir eru:

Hera Ósk Einarsdóttir, sviðsstjóri velferðarsviðs

Hera er með BA gráðu í félagsfræði og starfsréttindi sem félagsráðgjafi auk þess að hafa lokið þriggja anna námi í opinberri stjórnsýslu frá Endurmenntun Háskóla Íslands. Hera starfaði um árabil sem sviðsstjóri félagsmála- og fjölskyldusviðs Vestmannaeyjabæjar en hefur gengt ýmsum störfum tengt forvörnum, fjölskyldumálum og félagsþjónustu hjá Reykjanesbæ síðan 2006. Síðustu mánuði hefur Hera starfað sem staðgengill framkvæmdastjóra fjölskyldu- og félagssviðs hjá Reykjanesbæ.

Helgi Arnarson, sviðsstjóri fræðslusviðs

Helgi er með meistaragráðu í menntunarfræði frá háskólanum í Edinborg, diplóma í uppeldis og menntunarfræðum með áherslu á stjórnun auk íþróttakennaraprófs. Helgi var kennari um sex ára skeið og hefur starfað sem skólastjóri síðan 1998. Fyrst í Grunnskólanum á Blönduósi en í Hvaleyrarskóla í Hafnarfirði síðan 2006.

Guðlaugur Helgi Sigurjónsson, sviðsstjóri umhverfissviðs

Guðlaugur er byggingafræðingur, með löggildingu í byggingarfræði og mannvirkjahönnun. Guðlaugur starfaði sem byggingafræðingur á Verkfræðistofu Suðurnesja og sem verkefnastjóri hjá Þróunarfélagi Keflavíkurflugvallar auk þess að hafa verið í sjálfstæðum rekstri. Frá 2008 hefur hann starfað sem framkvæmdastjóri Umhverfis- og skipulagssviðs Reykjanesbæjar. 

Ásbjörn Jónsson, sviðsstjóri nýs stjórnsýslusviðs

Ásbjörn er hæstaréttarlögmaður með sveitastjórnarrétt, fasteignarétt, félagarétt, kröfurétt, stjórnsýslurétt  og fjármál fyrirtækja sem sérsvið. Ásbjörn hefur starfað á Lögfræðistofu Suðurnesja allan sinn starfsferil. Í störfum sínum sem lögmaður hefur hann unnið mikið fyrir Reykjanesbæ og önnur sveitafélög á Suðurnesjum.

Þórey I Guðmundsdóttir, sviðsstjóri fjármálasviðs

Þórey er með meistaragráðu í viðskiptafræði frá Háskóla Íslands og meistaragráðu í alþjóðasamskiptum frá háskólanum í Bristol í Englandi. Hún hefur áralanga reynslu í stjórnun fjármála, en hún var forstöðumaður fjárhags- og rekstrarsviðs Umhverfisstofnunar í fjögur ár, fjármálastjóri Lánasjóðs ísl. námsmann í tæpt ár og frá febrúar 2008 hefur hún verið fjármálastjóri / framkvæmdastjóri fjármála og rekstrarsviðs Reykjanesbæjar.

Halldór Karl Hermannsson, hafnarstjóri

Halldór er með B.Sc. gráðu í viðskiptafræði frá Bifröst og er í meistaranámi í opinberri stjórnsýslu. Hann hefur starfað hjá Reykjanesbæ sl. þrjú ár en var áður sviðsstjóri þjónustu- og framkvæmdasviðs Bláskógabyggðar. Halldór gegndi jafnframt starfi forstöðumanns Þjónustumiðstöðvar Vesturbyggðar á Bíldudal og var yfirhafnarvörður hafna Vesturbyggðar.

Nýtt skipurit Reykjanesbæjar mun taka gildi þann 1. júní n.k.  

Myndir f.v. Hera Ósk Einarsdóttir, Helgi Arnarson, Guðlaugur Helgi Sigurjónsson, Ásbjörn Jónsson, Þórey I Guðmundsdóttir og Halldór Karl Hermannsson.