Götuleikhús í Reykjanesbæ

Ekki láta það framhjá ykkur fara þegar hávaxnar undraverur og glaðværir trommuleikarar munu skálma niður Hafnargötu laugardaginn 4. júní kl. 12:00.

Risavaxnir fánar og blævængir svífa yfir mannfjöldanum og loftið er þrungið spennu, fegurð og hrynjandi. Þessi einstaka sýning er hluti af glæsilegri opnunarhátíð Listahátíðar í Reykjavík sem okkur hér í Reykjanesbæ hefur boðist að fá í heimsókn til Reykjanesbæjar.

Þessi magnaði hollenski leikhópur Close-Act Theatre hefur starfað í hartnær þrjátíu ár og vakið athygli víða um lönd fyrir leiftrandi götuleikhússýningar sem hrífa áhorfendur með sér inn í veruleika þar sem allt getur gerst. Risaeðlurnar í sýningunni Saurus spígsporuðu um miðborg Reykjavíkur í tilefni af opnun Listahátíðar árið 2018 og glöddu áhorfendur á öllum aldri. Hér snýr hópurinn aftur með seiðandi viðburð á heimsmælikvarða sem enginn má missa af.

Kíkið á ævintýraheim í Listasafninu

Í tilefni göngunnar verður íbúum og gestum boðið í heimsókn í Duus Safnahús þar sumarsýning safnsins Sporbaugur verður ný opnuð en hún er sannkallaður ævintýraheimur sem gaman er fyrir alla fjölskylduna að skoða. Á sýningunni vinna listamennirnir Gabríela Friðriksdóttir og Björn Roth með hið þekkta vestræna fyrirbæri litabækur og á sýningunni verður einmitt hægt að lita. Þennan dag opnar einnig málverkasýning Bjarnveigar Björnsdóttur í Bíósal Duus Safnahúsa.

Gerum okkur glaðan dag

Það er ekki á hverjum degi sem viðburður af þessum toga stendur íbúum Reykjanesbæjar til boða og því eru allir þeir sem eyða hvítasunnuhelginni heima við hvattir til að gera sér glaðan dag með því að mæta í miðbæinn, horfa á þennan magnaða leikhóp, líta við í Duus Safnahúsum, kíkja í búðir og fá sér jafnvel eitthvað gott að borða á veitingastöðum bæjarins.

Góða skemmtun.