- Þjónusta
- Velferð og stuðningur
- Menntun og fræðsla
- Skipulags-, bygginga- og umhverfismál
- Íþróttir og tómstundir
- Stjórnsýsla
- Mannlíf
- Mitt Reykjanes
Reykjanesbær hefur hlotið 2 milljóna króna styrk úr Þróunarsjóði innflytjendamála fyrir verkefnið Viltu kaffi? – Íslensku spjallhópur fyrir íbúa með fjölbreyttan tungumála- og menningarbakgrunn. Verkefnið miðar að því að skapa öruggt og afslappað rými þar sem íbúar geta æft sig í íslensku saman, kynnst samfélaginu og byggt tengsl við aðra íbúa.
Verkefnið verður unnið í nánu samstarfi við Miðstöð símenntunar á Suðurnesjum (MSS), sem einnig hlutu styrk úr sjóðnum fyrir verkefni með sambærilegar áherslur. Verkefni MSS ber heitið Íslenskuspor – tengsl í gegnum tungumál. Verkefnin munu styðja hvort við annað og skapa sameiginlegan grunn fyrir fjölbreytta innleiðingu tungumálastuðnings og samfélagsþátttöku á svæðinu.
Markmiðið með verkefninu er að efla þátttöku nýrra íbúa í samfélags- og menningarlífi Suðurnesja, skapa vettvang þar sem íslenskan er notuð á eðlilegan og jákvæðan hátt í félagslegum aðstæðum, stuðla að gagnkvæmum skilningi og virðingu milli innflytjenda og innlendra íbúa og tengja nýja íbúa við félagasamtök, stofnanir og tómstundastarf á svæðinu.
Bókasafn Reykjanesbæjar og Rauði krossinn eru samstarfsaðilar í verkefninu og koma að skipulagningu og framkvæmd spjallhópa. Verkefnið verður tengt við móttökuáætlun Suðurnesja, Velkomin til Suðurnesja – sudurnes.is.
Áætlað er að verkefnið hefjist á vormánuðum og verður öllum íbúum með fjölbreyttan tungumála- og menningarbakgrunn opið, óháð íslenskukunnáttu. Styrkurinn var afhentur formlega á málþingi innflytjendaráðs 10. desember sl., á alþjóðlega mannréttindadeginum.
Alls voru 28 verkefni sem fengu styrk úr Þróunarsjóði innflytjendamála og nema þeir samtals 70 milljónir króna. Áhersla sjóðsins í ár er á íslenskukennslu innflytjenda, þ.e. virkrar notkunar íslensku í gegnum félagslega viðburði til stuðnings við hefðbundið tungumálanám, þátttöku innflytjenda og innlendra á jafningjagrunni, m.a. með því að stuðla að lýðheilsu innflytjenda og virkri þátttöku þeirra í félagasamtökum og félagsstarfi, ásamt því að auka skilning og samkennd milli innlendra og innflytjenda á vinnustöðum eða í framhalds- og háskólum, svo sem með félagsvinaverkefnum og menningar- og tungumálabrúarsmíði.

Kl. 09:00 – 15:00 virka daga (mán.-fös.)