Reykjanesbær orðinn fjórða stærsta sveitarfélag landsins

Bergið fallega upplýst. Ljósmynd: OZZO
Bergið fallega upplýst. Ljósmynd: OZZO

Reykjanesbær er orðinn fjórða stærsta sveitarfélag landsins samkvæmt nýjum íbúatölum frá Þjóðskrá Íslands. Þar með skýst bærinn upp fyrir Akureyri sem hefur verið það fjórða stærsta í áraraðir. Þann 1. febrúar sl. var íbúafjöldi í Reykjanesbæ 18.968 en 18.928 á Akureyri.

Reykjanesbær hefur verið ört vaxandi bæjarfélag á síðustu misserum. Á síðustu þremur mánuðum hefur íbúum fjölgað um 86 og um 2.429 á síðustu tveimur árum. Þann 1. febrúar 2017 voru íbúar í Reykjanesbæ 16.539.

Þess má geta að á þessum degi fyrir 25 árum, þann 5. febrúar 1994, samþykktu íbúar í Keflavík, Njarðvík og Höfnum að ganga í eina sæng. Þar með varð sveitarfélagið fimmta stærsta sveitarfélag landsins. Fyrst um sinn gekk sveitarfélagið undir nafninu Keflavík, Njarðvík og Hafnir.

Stofndagur Reykjanesbæjar er 11. júní 1994. Samkvæmt sveitastjórnarlögum tekur ný sveitarstjórn við völdum 14 dögum eftir sveitastjórnarkosningar, sem voru 28. maí þetta sama ár. Þann 15. ágúst 1995 staðfesti bæjarstjórn hins sameinaða sveitarfélags nafnið Reykjanesbær sem heiti sveitarfélagsins.