Reykjanesbær, Reykjaneshöfn og Thorsil ehf. sýknuð af kröfu AGC ehf.

Húsnæði Héraðsdóms Reykjaness. Myndin er eign RÚV.
Húsnæði Héraðsdóms Reykjaness. Myndin er eign RÚV.

Reykjaneshöfn, Reykjanesbær og Thorsil ehf. voru sýknuð af kröfu Atlantic Green Chemicals (AGC ehf.) í héraðsdómi 19. október sl. AGC ehf. var jafnframt dæmt til að greiða stefndu hverju um sig málskostnað.

AGC ehf. hugðist reisa lífalkóhól- og glýkólverksmiðju í Helguvík og hafði augastað á lóðinni Stakksbraut 4, síðar Berghólabraut 4. Undirbúningsvinna hófs snemma árs 2011 m.a. með fundum með ráðamönnum Reykjanesbæjar þar sem matsáætlun fyrirtækisins var kynnt  og borin fram ósk um lóð í Helguvík. Hafnarstjóri lýsti Reykjaneshöfn reiðubúna til að úthluta AGC ehf. lóðina að Stakksbraut 4 undir verksmiðjuna ef um semdist, enda félli fyrirhuguð framkvæmd vel að markmiðum Reykjanesbæjar um uppbyggingu í Helguvík. Í apríl 2014 var undirritaður lóða- og hafnasamningur milli Reykjaneshafnar og Thorsil ehf. um lóð við Berghólabraut 4.

Í viðræðum við ráðamenn Reykjanesbæjar hafði stefnandi AGC ehf. talið að vilyrði fyrir lóðinni Berghólabraut 4 væri bindandi og fæli í sér forgangsrétt varðandi úthlutun lóðarinnar. Dómurinn komst að þeirri niðurstöðu að viljayfirlýsing Reykjaneshafnar fæli einungis í sér að höfnin væri reiðubúin að úthluta lóð til AGC ehf. ef um semdist og því ekki um skuldbindandi samning um úthlutun lóðarinnar að ræða á milli aðila.

Er þetta í annað sinn sem AGC ehf. hefur uppi kröfur af þessum toga á hendur Reykjaneshöfn, Reykjanesbæ og Thorsil ehf. Með dómi Hæstaréttar sem kveðinn var upp þann 26. nóvember 2015 var kröfum AGC ehf. á hendur þessum aðilum vísað frá dómi.