Reykjanesbær - Reykjavík í ÚTSVARI

Útsvarslið Reykjanesbæjar ásamt forseta bæjarstjórnar.
Útsvarslið Reykjanesbæjar ásamt forseta bæjarstjórnar.

Það verður við ramman reip að draga hjá liði Reykjanesbæjar á föstudagskvöldið þegar það mætir sigurvegurum síðasta vetrar, liði Reykjavíkur, í fyrstu umferð spurningaþáttarins ÚTSVARS sem nýlega hóf göngu sína í 8. sinn.

Sú breyting hefur orðið á liði Reykjanesbæjar að Guðrún Ösp Theodórsdóttir tekur sæti Huldu G. Geirsdóttur sem gaf það út s.l. vor að hún væri hætt. Um tíma var útlit fyrir að Hulda léti undan þrýstingi frá íbúum sem hvöttu hana óspart til að taka sæti sitt í liðinu á nýjan leik, m.a. á samfélagsmiðlunum. Það voru þó á endanum aðstæður tengdar starfi Huldu sem höguðu því þannig að hún neyddist til að gefa sætið frá sér og er aldrei að vita nema við sjáum hana hinum megin við borðið í Útsvarinu í vetur.

Á þessari stundu er ekki vitað hvort Guðrún Ösp muni standast Huldu snúning þegar kemur að vitneskju um hross en nokkuð öruggt er að hún mun skáka henni ef spurt verður um heilsutengt efni, þar sem Guðrún er menntaður hjúkrunarfræðingur og starfar á heilbrigðisstofnun Suðurnesja.

Baldur þarf vart að kynna enda hefur hann leitt lið Reykjanesbæjar á undanförnum árum, brugðið sér í allra kvikinda líki í leiknum og yfir höfuð leikið á alls oddi.

Síðasta vetur stökk svo inn í liðið, beint úr sigurliði MR í Gettu betur, Grétar Sigurðsson, sem heillaði með ljúfri framkomu og vaðandi vitneskju.

Við sendum liði Reykjanesbæjar baráttukveðjur og reiknum með sigri gegn Reykjavík. Ef hins vegar svo óheppilega vill til að það bregst, þá hefur það gefist okkur sérlega vel að fara áfram í aðra umferð sem stigahæsta taplið.

Áfram Reykjanesbær!