Reykjanesbær selur Magma skuldabréfið og greiðir niður skuldir

Hlið Reykjanesbæjar
Hlið Reykjanesbæjar

Reykjanesbær hefur selt skuldabréf sem bæjarfélagið eignaðist við sölu á HS orku til Geysis Green Energy og síðar Magma Energy. Kaupandi bréfsins er Fagfjárfestasjóðurinn ORK sem rekinn er af Rekstrarfélagi Virðingar hf. og er fjármagnaður af lífeyrissjóðum og fagfjárfestum. Kaupverðið nemur tæpum 6,3 milljörðum kr.

Sjóðurinn hefur í dag greitt bæjarsjóði Reykjanesbæjar um 3,5 milljarða kr. í peningum og um 500 milljónir í markaðsskuldabréfum en samkvæmt samkomulagi milli kaupanda og seljanda fer lokagreiðsla fram eftir 5 ár, við uppgjör á skuldabréfinu.

Í framhaldi af sölu bréfsins greiðir Reykjanesbær upp erlent lán við Depfa bankann, kr. 800 milljónir.
Þar með hefur bæjarsjóður náð að greiða upp öll erlend lán bæjarins.

Fjármagnið verður jafnframt nýtt til að greiða upp öll skammtímalán við bankastofnanir og skammtímaskuldir, ásamt greiðslu fjármagnstekjuskatts til ríkisins . Um 870 milljónir kr. verða lagðar til Reykjaneshafnar sem styrkir fjárhagslega stöðu hafnarinnar og tryggir skuldbindingar hennar. Þá verður gengið frá uppgjöri við Eignarhaldsfélagið Fasteign, uppá um 700 milljónir kr. en við þá samninga lækka heildarskuldir bæjarsjóðs um rúma 3,5 milljarða kr.

Það voru fyrirtækjaráðgjöf Virðingar hf og Centra fyrirtækjaráðgjöf hf sem sáu um sölu bréfsins og ráðgjöf vegna viðskiptanna.

Að sögn Árna Sigfússonar bæjarstjóra þá er þetta stór áfangi fyrir Reykjanesbæ og mun bæta fjárhagsstöðu bæjarins verulega. Bærinn greiðir m.a. upp öll erlend lán sín og allar skammtímaskuldir.