Roðagylling heimsins

Roðagylltur Reykjanesbær. Ljósmynd Melkorka Sigurðardóttir
Roðagylltur Reykjanesbær. Ljósmynd Melkorka Sigurðardóttir

Roðagylling heimsins (e. Orange the world) er 16 daga átak gegn kynbundnu ofbeldi sem hefst 25. nóvember ár hvert og lýkur 10. desember. Tímabilið markast af alþjóðlegum baráttudegi Sameinuðu Þjóðanna gegn kynbundnu ofbeldi og endar á alþjóða mannréttindadeginum. 

Árið 2020 hafa Sameinuðu þjóðirnar hvatt ríkisstjórnir heims til þess að gera aðgerðir gegn kynbundnu ofbeldi að lykilatriði í viðbragðsáætlunum þeirra gegn Covid-19. Því miður hefur ofbeldi aukist í kórónuveirufaraldrinum og eru konur og stúlkur oftast þolendur kynbundins ofbeldis.
Fyrirtæki, stofnanir og félagasamtök um allan heim taka þátt í átakinu með margvíslegum hætti en appelsínugulur er einkennislitur þess. Liturinn táknar bjartari framtíð lausa við ofbeldi og Reykjanesbær tekur þátt í þessu verkefni ásamt Soroptimistum, UNWOMEN og sameinuðu þjóðunum með því að lýsa upp byggingar í roðagylltum lit.
Systur í Soroptimistaklúbbi Keflavíkur fóru í sápugerð í október og eru sápurnar nú til sölu í Reykjanesapóteki og hjá Fjólu gullsmiði. Sápurnar eru appelsínugular að lit og með appelsínuangan. Þær eru vegan og framleiddar í samstarfi við Ólaf Árna Halldórsson hjá Sápunni. Allur ágóði af sölu sápunnar fer í að bæta hag kvenna og stúlkna.


Vegan sápa Soroptimistaklúbbs Keflavíkur. Ljósmynd Melkorka Sigurðardóttir.


Sigurjón Héðinsson í Sigurjónsbakaríi er með kleinuhringi og snúða með appelsínugulu kremi til sölu meðan átakið stendur yfir og rennur allur ágóði sölunnar í Velferðarsjóð Suðurnesja.


Kærleiks kleinuhringur úr Sigurjónsbakarí. Ljósmynd Steinþóra Eir Hjaltadóttir


Þátttakan í verkefninu hefur verið mjög góð og það er gaman að sjá hversu margir hafa lýst upp byggingar sínar með appelsínugulum lit bjartrar framtíðar.