Reykjanesbær tilbúinn í þátttöku í samráðsvettvangi vegna loftslagsmála og heimsmarkmiða Sameinuðu þjóðanna

Hér má sjá hvernig stefnuáherslur Reykjanesbæjar tengjast heimsmarkmiðum Sameinuðu þjóðanna. Mynd ú…
Hér má sjá hvernig stefnuáherslur Reykjanesbæjar tengjast heimsmarkmiðum Sameinuðu þjóðanna. Mynd úr stefnu Reykjanesbæjar 2020-2030 frá Capacent.

Reykjanesbær hefur lýst sig tilbúinn til þátttöku í samráðsvettvangi íslenskra sveitarfélaga með þátttöku í fundum og viðburðum um loftslagsmál og heimsmarkmið Sameinuðu þjóðanna. Bæjarráð Reykjanesbæjar sendi frá sér yfirlýsingu þess efnis á fundi ráðsins 4. júlí sl.

Samband íslenskra sveitarfélaga hefur hvatt sveitarfélög til að samþykkja yfirlýsingu um samstarf sveitarfélaga um loftslagsmál og heimsmarkmið Sameinuðu þjóðanna. Yfirlýsingin var samþykkt á fundi sambandsins undir lok júní og í framhaldi send til allra íslenskra sveitarfélaga. Í bréfinu er skorað á sveitastjórnir að standa að yfirlýsingu og drög send með til hægðarauka fyrir bæjar- og sveitastjórnir. 

Með aðildinni skuldbinda sveitarfélögin sig til þess að nýta samráðsvettvanginn til að miðla þekkingu og reynslu sín á milli varðandi loftslagsmál og innleiðingu heimsmarkmiðanna. Jafnframt verði leitað leiða til samstarfs þar sem þau gefast, eins og segir í bréfinu.

Bæjarráð Reykjanesbæjar sendi frá sér eftirfarandi yfirlýsingu:

„Reykjanesbær telur brýnt að ríki og sveitarfélög grípi nú þegar til markvissra og samstilltra aðgerða til að mæta áskorunum samtímans á sviði loftslagsmála og aðlaga íslenskt samfélag að þeim breytingum sem þegar hafa átt sér stað og fyrirséðar eru vegna loftslagsbreytinga. Einn mikilvægasti liðurinn í því aðkallandi starfi er að íslenskt samfélag verði lagað að kröfum sjálfbærrar þróunar. Sameinuðu þjóðirnar hafa lagt gagnlegan grunn að slíku starfi með heimsmarkmiðum um sjálfbæra þróun. 

Reykjanesbær lýsir sig tilbúinn til þátttöku í samráðsvettvanginum með þátttöku í fundum og viðburðum um loftslagsmál og heimsmarkmið Sameinuðu þjóðanna.
Reykjanesbær mun á sínum vettvangi beita sér fyrir markvissum aðgerðum og stefnumótun í átt til aukinnar sjálfbærni og kolefnishlutleysis. Fulltrúar sveitarfélagsins munu einnig, eftir því sem tilefni er til og aðstæður leyfa, taka þátt í miðlun þekkingar, þróun mælinga á árangri og öðru samstarfi sem tengist samráðsvettvanginum.“

Þess má geta að í nýrri stefnu Reykjanesbæjar til ársins 2030 er tekið mið af heimsmarkmiðum Sameinuðu þjóðanna. Loftslagsmál er 13. heimsmarkmið SÞ.