Reykjanesbær undirbýr endurfjármögnun 8,4 milljarða vegna Eignarhaldsfélagsins Fasteignar ehf.

Reykjanesbær
Reykjanesbær

Bæjarstjórn Reykjanesbæjar samþykkti á fundi sínum í kvöld að veita bæjarstjóra heimild til að vinna að endurfjármögnun 8,4 milljarða skuldar við Lífeyrissjóð starfsmanna ríkisins (LSR). Með endurfjármögnuninni mun Reykjanesbær kaupa aftur eignir sem seldar voru til Eignarhaldsfélagsins Fasteignar á sínum tíma en leigðar til baka fyrir grunnþjónustu sveitarfélagsins s.s. grunnskóla, leikskóla og íþróttamannvirki.

Núverandi skuld við LSR er til 25 ára og ber 4,2% vexti auk verðtryggingar. Eins og aðstæður eru á markaði í dag binda bæjaryfirvöld vonir við að hægt verði að lækka vexti umtalsvert og þar með fjármagnskostnað um 250 til 300  milljónir á ári.

Samkvæmt lánasamningum ber lánið 0,5% uppgreiðslugjald sem fellur niður í lok febrúar 2021. Það getur hins vegar tekið tíma að safna svo hárri lánsfjárhæð svo ætlunin er að nota næstu mánuði til þess í samvinnu við Lánasjóð sveitarfélaga. Stefnt er að því að taka verðtryggð og óverðtryggð lán með lánstíma frá 10-35 ár.