Reykjanesbær verði heilsueflandi samfélag

Árgangagangan á Ljósanótt er sannarlega heilsubætandi fyrir sál og líkama.
Árgangagangan á Ljósanótt er sannarlega heilsubætandi fyrir sál og líkama.

Bæjarráð Reykjanesbæjar samþykkti á dögunum að Reykjanesbær taki þátt í verkefni Embættis landlæknis, Heilsueflandi samfélag. Bæjarstjórn samþykkti bókun bæjarráðs á fundi sínum í gær. Heilsueflandi samfélag verður kynnt fyrir íbúum Reykjanesbæjar í heilsu- og forvarnarviku Reykjanesbæjar sem haldin verður 3. – 9. október nk.

Mjög gott starf hefur verið unnið í Reykjanesbæ á undanförnum árum í forvörnum og í að bæta heilsu íbúa, en alltaf má gera betur. Að því miðar verkefnið. Þannig hefur áfengis- og vímuefnaneysla meðal grunnskólabarna minnkað. Nýjustu niðurstöðu lýðheilsuvísa Embættis landlæknis sýna að ölvunardrykkja fullorðinna er lág og að íbúar í Reykjanesbæ og Suðurnesjum öllum séu hamingjusamir. Hamingjan er hér. Hins vegar þarf að minnka reykingar fullorðinna og bæta bæði andlega og líkamlega heilsu. Þó tölurnar séu tveggja til fjögurra ára gamlar og nýrra lýðheilsuvísa að vænta, er talin ástæða til að bregðast við þessum niðurstöðum.

Hvað er heilsueflandi samfélag?

Heilsueflandi samfélag miðar að því að þróa samfélagslegan ramma utan um markvissa og heildræna heilsueflingu allra aldurshópa. Í þeim tilgangi eru lagðir til grundvallar fjórir áhrifaþættir heilbrigðis sem unnið er með, þ.e. næring, hreyfing, geðrækt og lífsgæði.

Það er öllum til hagsbóta að huga að heilsunni. Heilsan er helsti áhrifaþáttur á lífsgæði okkar allra og margir hafa reynt að góð heilsa er ekki sjálfgefin. Að búa í heilsueflandi samfélagi er verkefni okkar allra, verkefni sem gefur okkur tækifæri til að huga betur að okkar eigin heilsu. Hjálpumst að, styðjum hvort annað og sýnum frumkvæði! Tökum nýtt skref, eilítið stærra en skrefið í gær. Möguleikarnir eru óþrjótandi. Oft skipta litlu skrefin sem við tökum svo miklu máli og er þá gott að eiga stuðninginn vísan.

Öllum sem vilja taka þátt í Heilsu- og forvarnarviku í Reykjanesbæ 3. – 9. október nk. er bent á að tilkynna viðburð sinn á netfangið heilsuvika@reykjanesbaer.is fyrir 23. september.