Rýnt í nýtingu Reykjaneshallar og gerð nýs gervigrasvallar

Frá kynningu á skýrslu VSÓ þann 15. janúar sl.
Frá kynningu á skýrslu VSÓ þann 15. janúar sl.

Staðsetning nýs gervigrasvallar vestan Reykjaneshallar mun ráðast af því hvort nýta eigi hann sem æfingavöll eða keppnisvöll. Þá má nýta Reykjaneshöll betur, að mati Sigurbjörns Boga Jónssonar og Sverris Bollasonar frá VSÓ. Þeir kynntu nýverið skýrslu um úttekt á hvoru fyrrgreindum íþróttamannvirkjum.

Fundur Reykjanesbæjar með forsvarsmönnum knattspyrnufélaganna í sveitarfélaginu um úttekt VSÓ á nýtingu Reykjaneshallar og staðsetningu nýs gervigrasvallar fór fram í Akademíunni 15. janúar sl. Bæjaryfirvöld hafa á undanförnum mánuðum hafið undirbúning að gerð nýs gervigrasvallar í Reykjanesbæ. Töluverð umræða hefur verið um að Reykjaneshöllin sé fullnýtt á bestu tímum hallarinnar.

Í framhaldi af þeirri umræðu var tekin sú ákvörðun að fá óháða aðila til að gera úttekt á notkuninni. Jafnframt að skoða hvar vestan Reykjaneshallar sé best að nýr gervigrasvöllur verði staðsettur.

Sigurbjörn Bogi Jónsson og Sverrir Bollason frá VSÓ kynntu helstu niðurstöður skýrslunnar. Þar kemur fram að nýting á æfinga- og keppnistímum hallarinnar sé nokkuð góð þó að alltaf megi gera betur. Að auki kynntu þeir nokkra valkosti um gerð nýs gervigrasvallar vestan Reykjaneshallar. Skiptir þar miklu máli hvort rætt sé um æfingavöll eða keppnisvöll.

Skýrslan mun verða til umfjöllunar í íþrótta- og tómstundaráði þann 29. janúar nk.

Fundinum stýrði Friðjón Einarsson formaður bæjarráðs.

Hér er horft yfir fundarsalinn í Akademíunni. Fremst er Friðjón Einarsson fundarstjóri