Safnahelgi á Suðurnesjum 14. og 15. mars

Bryggjuhús Duus Safnahúsa.
Bryggjuhús Duus Safnahúsa.

Söfn á Suðurnesjum hafa tekið höndum saman um að bjóða í sjöunda sinn upp á sameiginlega dagskrá helgina 14. – 15. mars n.k.  Markmiðið hefur frá fyrstu tíð verið hið sama þ.e. að kynna fyrir þjóðinni hin frábæru söfn og sýningar sem við bjóðum upp á Suðurnesjum.  Þetta er liður í menningarferðaþjónustu svæðisins og upplagt fyrir íbúa næsta nágrennis s.s. höfuðborgarinnar að renna í bíltúr hingað suður eftir um helgina og upplifa eitthvað af því fjölmarga sem hér verður í boði.  Aðsóknin síðustu ár hefur alltaf verið að aukast og síðast komu í kringum 2000 gestir. Söfn, setur og sýningar á svæðinu eru mörg og fjölbreytt og því verður margt á döfinni og fjölbreytt dagskrá.  Auk þess eru ýmis gallerí opin þar sem handverk og listmunir eru til sýnis og sölu.  Athygli er vakin á því að ókeypis er inn á öll söfnin að þessu tilefni og um leið á þá dagskrá sem er í boði á hverjum stað.

Fulltrúar allra sveitarfélaganna á Suðurnesjum hafa unnið sameiginlega að undirbúningi dagskrárinnar og er verkefnið stutt af Menningarráði Suðurnesja.

Öll dagskrá á safnahelgi.is

Dagskrá safnahelgarinnar má sjá á vefnum safnahelgi.is og kennir þar ýmissa grasa;  alls kyns sýningar, tónleikar, fyrirlestrar og margs konar uppákomur.  Söfn, safnvísar og sýningar nálgast á annan tuginn og eru þá bókasöfnin ekki talin með.  Fjölbreytni safnanna er einnig einstök á ekki stærra svæði og fólk getur kynnst sögunni frá því fyrir  landnám og til okkar tíma, margvíslegum atvinnuháttum, listum og náttúru.  Sjósókn og vinnsla sjávaraflans er t.d. kynnt á a.m.k. fjórum söfnum í þremur mismunandi bæjarfélögum, Kvikunni í Grindavík, Byggðasafninu í Garði, Bátasafninu í Duushúsum og Byggðasafninu í Duushúsum.

Tvær glænýjar sýningar

Nýjustu sýningarnar á svæðinu eru Einkasýning poppstjörnunnar Páls Óskars sem opnar í hinu nýja Rokksafni í Hljómahöll og Gestastofa Reykjanesjarðvangs sem opnar í Duushúsum og fjallar um náttúruna á Reykjanesi en í Duushúsum eru að auki 6 aðrar sýningar og þar á meðal sýning á verkum listmálarans Gunnlaugs Scheving.  Að auki má minna á sýningarnar í Víkingaheimum , Íbúð Kanans á Ásbrú, Slökkviliðsminjasafni Íslands í Safnamiðstöðinni í Ramma og Þekkingarsetrinu í Sandgerði.  Sjólist í Garði verður opið og skemmtilegar uppákomur verða í bókasafninu í Vogum. Menningarvika Grindavíkur hefst þessa sömu helgi og þar verður fjöldi viðburða í gangi.

Verið velkomin

Við viljum bara bjóða sem flesta velkomna og hvetja fjölskyldur til að koma og njóta þess sem í boði er.  Það er ókeypis inn á öll söfnin og sýningarnar og ótal margt að sjá, bæði fyrir börn og fullorðna. Að lokum má nefna að mörg gallerí og listhús eru líka opin og fólk verður bara að kíkja á safnahelgi.is.

Nánari upplýsingar veita eftirfarandi fulltrúar sveitarfélaganna:

Þorsteinn Gunnarsson Grindavíkurbæ. Sími: 894 1116 

thorsteinn@grindavik.is

Valgerður Guðmundsdóttir Reykjanesbæ. Sími: 864 9190 

valgerdur.gudmundsdottir@reykjanesbaer.is

Guðjón Þ. Kristjánsson Sandgerðisbæ. Sími: 899 2739 

gudjon@sandgerdi.is

Stefán Arinbjarnarson Vogum. Sími:867-8854

olafur@vogar.is

Eyrún Helga Ævarsdóttir Garði. Sími 896-6774 

eyrunhelga@svgardur.is