Safnahelgi framundan frá 18. til 19. mars

Safnahelgi á Suðurnesjum er haldin árlega, uppfull af skemmtilegum uppákomum og viðburðum um allan Reykjanesskagann. Safnahelgin er samstarfsverkefni safna, setra og sýninga á Suðurnesjum sem opna dyr sínar fyrir íbúum og gestum svæðisins. Þá hafa einkasafnarar og einstaklingar nýtt tækifærið og boðið gestum inn á einkasýningar sínar og vinnustofur. Dagskrá helgarinnar er fjölbreytt og skemmtileg fyrir alla fjölskylduna.

Stuð í Listasafninu

Í Reykjanesbæ verður fjölmargt á boðstólum um helgina. Mjög líflegt verður hjá Listasafni Reykjanesbæjar í Duus safnahúsum þar sem ný sýning, Divine Love, á skartgripalínu eftir hönnuðinn Sigrúnu Úlfsdóttur verður opnuð á laugardag. Á sunnudag verður boðið upp á skemmtilega listasmiðju fyrir börn í tengslum við nýopnaða sýningu í safninu sem nefnist Undirljómi / Infra-Glow. Sýningin er unnin í samstarfi Listasafnsins og meistaranema í sýningagerð við Listaháskóla Íslands og er einstaklega skemmtileg þar sem leikur að ljósum spilar stórt hlutverk.

Hefur þú sögu að segja frá tíma varnarliðsins?

Byggðasafn Reykjanesbæjar stendur fyrir söfnun frásagna um setuliðið á Miðnesheiði og áhrif þess á líf og störf Íslendinga. Eva Kristín Dal, safnstjóri Byggðasafnsins og Helga Vollertsen, sérfræðingur þjóðhátta við Þjóðminjasafn Íslands, munu kynna verkefnið fyrir gestum Duus safnahúsa laugardaginn 18. mars. Þeir sem hafa áhuga geta tekið þátt í verkefninu og svarað einni eða fleiri spurningaskrá. Spurningaskrárnar verður einnig hægt að nálgast í gegnum menningarsögulega gagnasafnið Sarp, https://sarpur.is/Spurningaskrar.aspx?View=small.

Presley og Gálan bjóða á stefnumót

Sjálfur konungur rokksins, Elvis Presley, býður upp á stefnumót í Bókasafni Reykjanesbæjar á laugardag en þar er skemmtileg sýning um kappann og möguleiki á að detta í lukkupottinn.

Listamaðurinn Gálan kemur fram á Rokksafni Íslands á laugardag en Gálan er listamannanafn tónlistarmannsins Júlíusar Guðmundssonar. Rokksafnið býður upp á fjölbreytta skemmtun fyrir alla fjölskylduna en þar er m.a. hljóðbúr þar sem gestir geta prófað sig áfram með hljóðfæri, gagnvirkir plötuspilarar þar sem hægt er skoða sögu listamanna á einstakan máta og margt fleira mjög áhugavert.

Stríðsminjasafnarar og Víkingar fara á kreik

Þá verða einkaaðilar á ferð með tvær spennandi sýningar. Annars vegar eru það stríðsminjasafnarar sem sýna merkilega munir úr einkasöfnum, suma sem ekki hafa komið fyrir augu almennings áður, og verður sú sýning í Svarta pakkhúsinu, Hafnargötu 2a. Hins vegar eru það víkingar og handverksfólk sem munu slá upp fagurlega útskornum víkingatjöldum og sýna ýmsa muni og segja frá í SBK húsinu í Grófinni 2.

Skemmtilegur símaleikur í bílnum á milli byggðarlaga

Gestir eru að sjálfsögðu hvattir til að heimsækja nágrannabyggðarlögin á Suðurnesjum og sjá hvað þau hafa upp á að bjóða á Safnahelginni. Á þeirri ferð er tilvalið að spila skemmtilegan leik sem er í senn einfaldur og fræðandi fyrir alla fjölskylduna en með appinu TurfHunt er hægt að heimsækja tíu úrvals staði á Suðurnesjum með símtæki í hönd.

Þetta er aðeins brot af því sem er á boðstólum á Safnahelgi á Suðurnesjum um helgina og má kynna sér alla dagskrá á www.safnahelgi.is