Barnvænt sveitarfélag

Mynd: Víkurfréttir
Mynd: Víkurfréttir

Samstarfssamningur um innleiðingu Barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna í Reykjanesbæ

Kjartan Már Kjartansson, bæjarstjóri Reykjanesbæjar, Ásmundur Einar Daðason, félags- og barnamálaráðherra og Birna Þórarinsdóttir, framkvæmdastýra UNICEF á Íslandi undirrituðu í dag, 25. júní 2020, samstarfssamning um verkefnið Barnvæn sveitarfélög. Með undirskriftinni skuldbindur Reykjanesbær sig til að hefja vinnu við innleiðingu Barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna í stjórnsýslu sína með stuðningi félagsmálaráðuneytisins og UNICEF á Íslandi. Undirritunin fór fram í bókasafninu og sungu börn af leikskólanum Tjarnarseli tvö lög af því tilefni fyrir viðstadda.

Hugmyndafræði verkefnisins byggir á þekkingu á réttindum barna, því sem barninu er fyrir bestu, jafnræði, að horft sé til réttinda allra barna, þátttöku barna og barnvænni nálgun. Kjartan Már telur verkefnið rökrétt skref og í takt við nýja stefnumótun Reykjanesbæjar. „Reykjanesbær hefur sett sér metnaðarfulla stefnu til ársins 2030 þar sem ein af stefnuáherslum er að styðja við börn svo þau megi blómstra í fjölskyldunni, skólum, íþróttum og tómstundum til að auka kraft samfélagsins. Innleiðing Barnasáttmálans fellur mjög vel að þeirri stefnu en í barnvænu sveitarfélagi er lögð áhersla á að tryggja umhverfi barns, viðhorf, taka mið af þörfum og hagsmunum barna og að stjórnsýsla og þjónusta sé barnvæn.“

Búið er að setja saman stýrihóp um verkefnið og hefur María Gunnarsdóttir, forstöðumaður barnaverndar verið skipuð verkefnastjóri. Í stýrihópnum eru fulltrúar frá öllum sviðum Reykjanesbæjar, meiri- og minnihluta í bæjarstjórn og ungmennaráði. Nú þegar þetta skref hefur verið stigið hefst kortlagning, fræðsla og áætlanagerð svo hægt sé að vinna hörðum höndum að innleiðingarferlinu sem tekur allt að tvö ár og skiptist ferlið niður í átta skref. María segist full tilhlökkunar að hefja þessa metnaðarfullu vinnu og er sannfærð um að verkefnið muni bæta þjónustuna við íbúa af yngri kynslóðinni. Að lokinni innleiðingu getur sveitarfélagið sótt um viðurkenningu hjá UNICEF sem barnvænt sveitarfélag.

Hugmyndafræði Barnvænna sveitarfélaga byggir á alþjóðlegu verkefni UNICEF, Child Friendly Cities en það hefur verið innleitt í hundruðum sveitarfélaga um allan heim. UNICEF á Íslandi styður sveitarfélögin í innleiðingu sinni á Barnasáttmálanum og hefur Reykjanesbær nú bæst í hóp þeirra sveitarfélaga sem hafa þegar hafið innleiðingu. 

Nánari upplýsingar um Barnvæn sveitarfélög má nálgast á vefsíðunni Barnvæn sveitarfélög