Samstarfssamningur við Laufið

Reykjanesbær gerir samstarfssamning við Laufið og stígur samræmd skref í sjálfbærnivegferð sinni.

Á dögunum var skrifað undir samstarfssamning milli Reykjanesbæjar annars vegar og Laufsins hins vegar um aukinn sýnileika og gagnsæi innan stofnana Reykjanesbæjar.

Laufið er fyrsta græna upplýsingaveitan á Íslandi og er í grunninn stafrænn vettvangur sem gefur stjórnendum góða yfirsýn um stöðu mála í umhverfis- og sjálfbærnimálum innan sinnar einingar. Þar er einnig að finna aðgerðir og hin ýmsu verkfæri til að styðja við stjórnendur í umhverfis- og sjálfbærnimálum. Laufið skiptist í fimm lauf og græn skref sem tengjast meðal annars Heimsmarkmiðunum.

Hvert lauf inniheldur skýrar og mælanlegar aðgerðir. Laufin fimm eru þessi:

  • Flokkun úrgangs | flokkun úrgangs á ábyrgan hátt
  • Umhverfisstefna | skýr umhverfisstefna, mótuð af starfsfólki, kynnt hagaðilum og birt á laufid.is
  • Miðlun þekkingar | stutt netnámskeið á vegum Laufsins
  • Loftslagsáhrif | losun gróðurhúsalofttegunda reiknuð og samdráttaráætlun sett fram
  • Hringrásarsamfélag | mótun innkaupstefnu með áherslu á notað umfram nýtt

Grænu skrefin samanstanda af rúmlega eitt hundrað grænum og umhverfisvænum hugmyndum sem fyrirtæki geta nýtt sér og ráðist í til að bæta sig í umhverfismálum.

Nú hefst kortlagning á stöðu mála hjá öllum stofnunum Reykjanesbæjar sem verður svo fylgt eftir með fræðslu, ráðgjöf og innleiðingu frá sérfræðingum Laufsins.

Kynningar fyrir fyrirtæki í Reykjanesbæ

Á næstunni verður stjórnendum fyrirtækja í Reykjanesbæ boðið að kynna sér Laufið og þær lausnir sem í boði eru á kynningarfundum sem haldnir verða hér í bæ. Fyrirtæki í sveitarfélaginu eru hvött til þess að kynna sér Laufið og taka þátt í sjálfbærnivegferð Reykjanesbæjar. Umhverfis- og loftslagsmál eru hagsmunamál okkar allra og með þátttöku í svona verkefnum leggjum við okkar af mörkum við að gera sveitarfélagið okkar að betri stað fyrir alla íbúa þess.