Samtvinnun tónlistar og myndlistar

Frá æfingu tónlistarhópsins og myndlistarhópsins sem flytja mun gjörninginn.
Frá æfingu tónlistarhópsins og myndlistarhópsins sem flytja mun gjörninginn.

Tónlistargjörningur þar sem tónlist og myndlist tvinnast saman verður fluttur í Bíósal Duus safnahúsa laugardaginn 6. maí kl. 13:00. Dagskrárliðurinn er hluti af Listahátíð barna í Reykjanesbæ og tengist gjöf tónskáldsins og myndlistarmannsins Hafliða Hallgrímssonar til Listasafns Reykjanesbæjar.

Kveikjan að verkefninu Samtvinnun tónlistar og myndlistar var sú að Listasafni Reykjanesbæjar barst s.l. haust vegleg listaverkagjöf frá Hafliða Hallgrímssyni tónskáldi sem búið hefur í Skotlandi um árabil. Hafliði er eins og margur listamaðurinn, hagur á fleiri en eina listgrein og ásamt því að vera eitt af fremstu tónskáldum þjóðarinnar hefur hann iðkað myndlist um árabil. Gjöfin samanstóð af 7 málverkum og 14 grafíkverkum, nánar tiltekið silkigrafík og öll verkin voru abstrakt.

Verkefnið gekk út á að halda sérstakt námskeið eða vinnusmiðju með ungu fólki í Reykjanesbæ í tengslum við Listahátíð barna í maí, þar sem unnið væri með tengingu tónlistar og myndlistar og listaverk Hafliða, bæði myndverk og tónverk, yrðu lögð fram sem kveikja. Unnið var með nemendum bæði í tónlist og myndlist og áhersla lögð á tónsmíðar og gerð myndverka.

Sérmenntaðir leiðbeinendur voru fengnir til að vinna með unga fólkinu, annars vegar tónskáld og tónlistarkennarar frá Tónlistarskóla Reykjanesbæjar og hins vegar myndlistarmenn og myndlistarkennarar frá Listasafni Reykjanesbæjar og þremur grunnskólum bæjarins. Hóparnir unnu svo ýmist einir eða allir saman í rúma tvo mánuði og verður afraksturinn kynntur með uppákomu í Bíósal Duus Safnahúsa laugardaginn 6.maí kl. 13.00.

Hafliði Hallgrímsson verkur kynntur og opnuð samsýning á málverkum hans og myndverkum unga fólksins sem unnin voru á tímabilinu. Einnig verður leikin tónlist eftir Hafliða og úrval af þeim tónverkum sem samin voru á námskeiðinu. Uppákomunni lýkur svo með gjörningi þar sem tónlistarnemendur túlka valið verk eftir Hafliða í frumsaminni tónlist og á sama tíma munu myndlistarnemendur túlka tónlist samnemendanna í myndverkum. Þetta er liður í Listahátíð barna í Reykjanesbæ og allir hjartanlega velkomnir. Verkefnið hlaut styrk frá Uppbyggingarsjóði Suðurnesja.

Nánari upplýsingar gefa Valgerður Guðmundsdóttir 864-9190 og Inga Þórey Jóhannsdóttir 662-8785.