Sjálfboðaliðum þakkað óeigingjarnt starf

Sjálfboðaliðar
Sjálfboðaliðar

Lestrarömmur í Holtaskóla, Friðarliljur, starsfólk Virkjunar, skátarnir, Björgunarsveitin og foreldra- og líknarfélög voru brot af þeim sjálfboðaliðum sem Árni Sigfússon nefndi í þakkarávarpi sínu í samkomu sjálfboðaliða í Reykjanesbæ í gær. Ljóst er að hundruð sjálfboðaliða starfa daglega í samfélaginu að ótrúlega fjölþættum verkefnum. Hér fer á eftir ávarp bæjarstjóra í tilefni dagsins:

Ágætu sjálfboðaliðar,

Í þessari viku halda skátar svokallaða góðgerðardaga.  Það samræmist vel kjörorði þeirra að gera eitt góðverk á dag.  Skátastarfið er gott dæmi um það mikla sjálfboðastarf sem fram fer á Íslandi og hér í bæ er slíkt starf öflugt og blómlegt í hinum svokallaða „þriðja geira“ sem samanstendur af félögum, klúbbum, samtökum og einstaklingum.
Sjálfboðaliðastarf í Reykjanesbæ fer fram á ótrúlega mörgum stöðum og teygir anga sína um allt samfélagið –
Meðal annars fer slíkt starf fram hjá Menningarhópum - Þar er fjöldi fólks sem gefur af sér í þágu samfélagsins, gefur verk sín til góðgerðarmála og stuðlar að því að skapa litskrúðugt samfélag.  Í íþrótta- og tómstundafélögum á sér stað gríðarlega mikið sjálfboðastarf, eins og þið þekkið. 
Hugsið ykkur allar stjórnirnar í íþrótta-, góðgerðar- og líknarfélögum, sem gefa alla vinnu sína. Foreldrar að sinna öðrum langt út fyrir umsjón með eigin börnum - öll íþróttamótin sem þarf að skipuleggja og sinna, ferðalög með hópa og margvíslegt söfnunarstarf. 
Kirkjurnar okkar vinna gríðarlega mikið líknarstarf þar sem sjálfboðaliðar koma mjög mikið við sögu.  Kvenfélög, góðgerðar- og líknarfélög (Lions, Lionessur, Kiwanis og önnur slík samtök).  Ekki má gleyma Fjölskylduhjálpinni þar sem sjálfboðaliðar leggja sig fram í þágu þeirra sem minna mega sín í dag.
Þá nefni ég  Rauða Krossinn og  Félag eldri borgara.  Björgunarsveitin er heimsþekkt sveit sem byggir á óeigingjörnum fórnum svo margra einstaklinga í þágu lífs og öryggis samborgaranna.  Og þannig má áfram telja.
Hjálpræðisherinn hefur unnið frábær verkefni og veitt stuðning ungum sem öldnum í okkar samfélagi.  Blái herinn hefur hreinsað þúsundir tonna af rusli úr höfnum og strandlengjunni - nánast allt í sjálfboðavinnu.  Lundur forvarnar og meðferðarstarf hefur unnið þrekvirki með litlum fjármunum – allt vegna sjálfboðastarfs.
Virkjun að Ásbrú – þar er fjöldi fólks sem leiðbeinir og kennir og sér um aðstöðu nánast alfarið með sjálfboðastarfi, -  Veitingamenn í bænum okkar sem gefa súpur, bjóða í matarveislur og gefa húsnæði sitt undir samkomur fyrir þá sem minna mega  sín, samtökin Seeds hafa unnið mikið sjálfboðastarf við endurbætur og uppbyggingu skemmtilegra verkefna, s.s. útikennslustofurnar í Njarðvíkinni. 
Í Foreldrafélögum í grunn- og leikskólum fer fram mikið sjálfboðastarf og frábært dæmi um sjálfboðastarf eru Lestrarömmurnar í Holtaskóla.  Tónlistarskólinn, starfsmenn og nemendur hans eru iðulega reiðubúin að gefa af sér í þágu samfélagsins,  Friðarliljurnar hópur syngjandi kvenna sem hafa m.a. skemmt eldri borgurum í Reykjaneshöllinni. 

Annað dæmi þar sem hópur tók sig til í sérstöku sjálfboðaverkefni var þegar Þeir Sigurjón Hafsteinsson og Björgvin Garðarsson, slökkviliðsmenn á Keflavíkurflugvelli afhentu Ástþóri Skúlasyni, lömuðum bónda á Melanesi á Rauðasandi sérdeilis veglega jólagjöf þann 22. desember síðastliðinn.  Þá höfðu þeir tekið bíl Ástþórs sem nánast var ónýtur og gert á honum algera yfirhalningu.  Þar nutu þeir aðstoðar góðra manna frá Bílasprautun Magnúsar Jónssonar og Bílageiranum m.a. en tugir manna komu að þessu frábæra framtaki sem tók heilan mánuð í framkvæmd.

En hér er aðeins brot nefnt af því mikla sjálfboðastarfi sem fer fram í bænum okkar nánast á hverjum degi.  Við þessa upptalningu koma eflaust í huga ykkar margir fleiri- en upptalningin hér á alls ekki að vera tæmandi – aðeins dæmi um hversu gríðarlega mikið starf er hér unnið - þar sem einn gefur af sér í þágu annarra - án þess að til komi peningaleg umbun.
Sjálfboðastarf er í eðli sínu þannig að sjálfboðaliðar sem gefa þjónustu sína eru fyrst og fremst að því til að gefa af sér til annarra og ætlast ekki til að fá þakkir.  Þessi samkoma er helguð öllum sjálfboðaliðum.

Fyrir hönd þakklátra íbúa Reykjanesbæjar, langar mig að þið séuð sýnishorn þeirra sem taka við fátæklegum þökkum fyrir hönd alls samfélagsins, fyrir hið óeigingjarna starf sem þið vinnið og fyrir þau kraftaverk sem þið skapið með því – oftast án þess að gera ykkur grein fyrir því...
Að loknu þessu stutta þakkarávarpi er hugmyndin að við fáum okkur kaffi og meðlæti, hlustum á tónlistaratriði og gleðjumst saman yfir þeim árangursríku og óeigingjörnu sjálfboðastörfum sem gerir mannlífið hér í bæ svo gott sem raun ber vitni.

Þó mig langi til að segja að sé full ástæða til að ljúka þessum orðum með hinu ágæta lagi Blás Ópals –Stattu upp fyrirsjálfum þér – þá veit ég að þið viljið ekki klappa fyrir ykkur - en ég bið ykkur um að klappa fyrir öllum þeim sjálfboðaliðum sem ekki eru hér í dag - og þakka fyrir frábært starf í þágu samfélagsins.