Skemmtilegur íbúafundur um Ljósanótt

Frá íbúafundi.
Frá íbúafundi.

Þann 11. febrúar boðaði menningarráð Reykjanesbæjar til fundar með bæjarbúum og var fundarefnið Ljósanótt. Tilgangur fundarins  var að kanna hug fólks til hátíðarinnar og kalla eftir umræðu og hugmyndum um þróun hennar. Fyrir liggur að minni fjármunum verður varið í hátíðina en áður, á tímum aðhalds í málefnum sveitarfélagsins.

Um 30 manns mættu á fundinn sem var líflegur og skemmtilegur. Mikil jákvæðni í garð Ljósanætur var áberandi í umræðunum og samkomulag um að heildarbygging hátíðarinnar héldi sér.  Ýmsar spurningar voru lagðar fyrir fundarmenn sem ræddu þær í litlum hópum og svo voru niðurstöður kynnar. Í ljósi þess að fjármagn til hátíðarinnar í ár er lægra en áður leituðu fundarmenn m.a. leiða til sparnaðar en þó ekki þannig  að helstu dagskrárliðir s.s. árganganga myndu líða fyrir.  M.a. var lagt til að á föstudagskvöldinu yrði  lágstemmdari dagskrá en verið hefur og enn frekar reynt að höfða til íbúanna sjálfra með framlagi.

Fjöldi tillagna kom fram hjá fundarmönnum og má lesa þær í meðfylgjandi skjali. Það skal þó ítrekað að hér er aðeins um hugmyndir fundarmanna að ræða en engar fastmótaðar niðurstöður. Hugmyndirnar verða nýttar sem innlegg við undirbúning næstu hátíðar.

Íbúar eru hvattir til að senda áfram inn tillögur á netfangið menningarfulltrui@reykjanesbaer.is