Skólabyrjun

Arkað eftir Brekkustíg til Njarðvíkurskóla fyrsta skóladaginn.
Arkað eftir Brekkustíg til Njarðvíkurskóla fyrsta skóladaginn.

Nú líður senn að því að grunnskólar Reykjanesbæjar hefji störf. Mánudaginn 24. ágúst er skólasetning. Nánari upplýsingar fyrir hvern skóla eru birtar á heimasíðum skólanna. Um 250 fyrstu bekkingar eru nú að hefja grunnskólanám en alls eru nemendur í grunnskólunum okkar 2462.  

Flestum nemendum og foreldrum finnst gott að komast aftur í sínar venjur hausts og vetrar þó erfitt geti reynst að kveðja sumarið. Framundan eru arkandi börn um allan bæ með skólatöskur á bakinu og því eru ökumenn beðnir um að sýna aðgát í nágrenni skóla. 

Í þessu samhengi er viðeigandi að birta ljóð Vilborgar Dagbjartsdóttur um haustið. 

Nú haustar að 

Einhverja nóttina koma skógarþrestirnir 
að tína reyniber af trjánum 
áður en þeir leggja í langferðina yfir hafið, 
en það eru ekki þeir sem koma með haustið 
það gera lítil börn með skólatöskur. 

Vilborg Dagbjartsdóttir