Skólamáltíðir | hlutfall nemenda helst óbreytt milli ára

Frá matmálstíma í Heiðarskóla.
Frá matmálstíma í Heiðarskóla.

Alls eru 2157 nemendur í áskrift af skólamáltíðum af 2466 nemendum í grunnskólum Reykjanesbæjar. Það gerir 87,47% hlutfall. Nánast sama hlutfall var á síðasta skólaári þegar 2133 nemendur af 2437 voru í áskrift sem gerir 87,53% hlutfall. Það má því segja að hlutfallið haldist í raun óbreytt milli ára.

Fram kom á fundi fræðsluráðs síðastliðinn föstudag að loka hafi þurft 12 áskriftum en samkvæmt uppfærðum upplýsingum frá Skólamat, sem sér um skólamáltíðir í grunnskólunum, hefur þurft að tilkynna foreldrum um lokun 5 áskrifta það sem af er skólaári vegna ógreiddra reikninga og er það svipaður fjöldi og verið hefur undanfarin ár.

Brugðist er við öllum tilvikum þegar loka þarf fyrir áskrift. Skólastjórnendur eru upplýstir um þau tilvik og setja málin í réttan farveg þannig að öll tilvik verði leyst á farsælan hátt og öll börn fái að borða í skólanum.

Í ljósi aðstæðna í samfélaginu er rík ástæða til að fylgjast náið með stöðunni og mun fræðslusvið taka saman upplýsingar sem þessar reglulega þannig að tryggja megi að ekkert barn líði skort í skólunum okkar.