Börn í grunnskólum Reykjanesbæjar nýta sér vel hádegisverðina sem í boði eru í skólunum, enda með því allra ódýrasta sem býðst á landinu. Áskrifendum í mat hefur fjölgað talsvert á milli ára, voru um 67% nemenda fyrir tveimur árum en er nú svipað og í fyrra eða um 71% í mars.

Árni Sigfússon bæjarstjóri sagði á íbúafundi í Njarðvík í síðustu viku, þar sem þetta kom m.a. fram, að þetta væri ánægjuleg þróun en vel væri fylgst með hvernig börnin nýttu sér matartilboðin í kreppunni og brugðist við ef myndi draga úr noktun. Skólamatur er verulega niðurgreiddur í Reykjanesbæ.

Samkvæmt upplýsingum frá íbúafundinum er kostnaður við hverja máltíð um 472 krónur en nemandinn greiðir 250 kr. Bæjarsjóður greiðir mismuninn.

Víkurfréttir greina frá þessu á vef sínum vf.is

Næsti íbúafundur verður haldinn annað kvöld í Háaleitisskóla og hefst kl. 20:00.