Samningur við Skólamat endurnýjaður

Reykjanesbær endurnýjar samning við Skólamat

Reykjanesbær og Skólamatur ehf. undirrituðu í vikunni samning um framleiðslu og framreiðslu á skólamat fyrir alla grunnskóla og þrjá af leikskólum bæjarins að undangengnu útboði. Skólamatur var eina fyrirtækið sem tók þátt í útboðinu og hljóðaði tilboð þess upp á einingarverðið 825 kr. sem er um 27% hærra en núverandi einingarverð á hádegismat. Reykjanesbær hefur niðurgreitt skólamáltíðir um 30% og ef sama kostnaðarskipting yrði áfram að loknu þessu útboði myndi verð til foreldra hækka úr 454 kr. í 575 kr.

Á fundi sínum sem haldinn var fimmtudaginn 18. ágúst ákvað bæjarráð hins vegar að hækka niðurgreiðsluhlutfall bæjarins úr 30% í tæp 40% með það fyrir augum að milda áhrif hækkunarinnar fyrir foreldra og verður nýtt áskriftarverð því 499 kr. í stað 575 kr.

Þess má geta að systkinaafslættir eru með þeim hætti hjá okkur í Reykjanesbæ að ekkert heimili greiðir skólamat fyrir fleiri en tvö börn. Með því vill sveitarfélagið koma til móts við stór heimili og barnmargar fjölskyldur.

Skólamatur ehf. og Reykjanesbær hafa átt í afar farsælu samstarfi allt frá árinu 2005 og hlökkum við til áframhaldandi góðs samstarfs.