Skorað á samgönguráðherra að telja holurnar á Reykjanesbraut

Guðlaugur Helgi Sigurjónsson sviðsstjóri Umhverfissviðs á íbúafundi um tvöföldun Reykjanesbrautar.
Guðlaugur Helgi Sigurjónsson sviðsstjóri Umhverfissviðs á íbúafundi um tvöföldun Reykjanesbrautar.

Með vorinu hefjast framkvæmdir við gerð hringtorga á mótum Aðalgötu og Reykjanesbrautar og Þjóðvegar og Reykjanesbrautar til að auka umferðaröryggi á Reykjanesbraut. Þetta kom fram í máli Guðlaugs Helga Sigurjónssonar á íbúafundi um tvöföldun Reykjanesbrautar í gær. Ekki verður um lokanir að ræða á meðan á framkvæmdum stendur, en óneitanlega rask. Þá var í gær tekin fyrsta skóflustunga að mislægum gatnamótum við Krísuvíkurveg og Reykjanesbraut.

Vinstri beygja inn á Reykjanesbraut frá Aðalgötu og Þjóðvegi eru mjög varasamar og umferð erfið á þessum gatnamótum. Lokað var fyrir vinstri beygju á gatnamótum Hafnavegar og Reykjanesbrautar í fyrrasumar, sem var sérstaklega varasöm. Heyra mátti á gestum íbúafundarins í gær að framkvæmdunum væri fagnað, þó aðrir vilji meina að hér sé aðeins um plástur að ræða, tvöfalda þurfi Reykjanesbraut alla leið frá Hafnarfirði að Flugstöð Leifs Eiríkssonar.

Kaflinn frá Fitjum að flugstöðu er nú komin í 2. fasa langtímaáætlunar og á máli Jóns Gunnarssonar samgönguráðherra á fundinum í gær mátti greina að farið væri að huga að þeim kafla. Ísak Ernir Kristinsson fulltrúi Stopp hópsins kom því á framfæri á fundinum í gær, að upplagt væri að fara að hanna þennan kafla svo hann verði tilbúinn þegar búið verður að tryggja nægilegt fjármagn í nýframkvæmdir.

Eins og komið hefur fram í fréttum er ekki samhljómur á milli samgönguáætlunar og fjárlaga þessa árs, þar sem minna fé er varið í samgöngumál en vonir stóðu til. Unnið er að því að brúa bilið, að sögn samgönguráðherra, en markmiðið sé að stækka kökuna, finna fjármagn til að geta varið meira fé til nýframkvæmda í samgöngumálum. Fjármagn til endurbóta sé þó 40% hærra nú, en víða séu vegir í ólestri svo nauðsynlegt sé að forgangsraða. Skorað var á samgönguráðherra að telja holurnar á heimleið af fundinum til að finna á eigin skinni þörfina á endurbótum á Reykjanesbraut.

Í máli Steinþórs Jónssonar formanns FÍB, og baráttumanni fyrir tvöföldun Reykjanesbrautar í upphafi þessarar aldar, að flestir vegkaflar á Reykjanesbraut væru einnar til þriggja stjörnu, þó einstaka stuttir kaflar fengju fjórar og fimm stjörnur. Félagið vinnur nú að úttekt á vegum landsins með EuroRap kerfinu.

Samgönuráðherra fer yfir samgöngumálin á íbúafundinum 

 Ísak Ernir Kristinsson Stopp hópi á íbúafundinum

Horft yfir Stapa 

 Frummælendur með skófluna sem notuð var við fyrstu tvöföldun Reykjanesbrautar