Skrautleg götulýsing á Ljósanótt

Eins og gestir Ljósanætur hafa vafalaust tekið eftir varpa götulampar við Hafnargötu marglitum ljósum sem setja virkilega skemmtilegan svip á hátíðarsvæðið. Um er að ræða nýja götulampa sem leysa af hólmi lampa sem verið hafa á staurum Hafnargötu í u.þ.b. 20 ár og hafa runnið sitt skeið. Þeir þóttu gott sviðsmyndarefni í True Detective upptökum sumarsins til að endurspegla liðna tíma en hlutverki þeirra til lýsingar Hafnargötu er lokið. Starfsmenn Umhverfissviðs Reykjanesbæjar náðu samkomulagi við ÍSAM og Signify um að setja í forgang framleiðslu lampa fyrir hluta hátíðarsvæðis Ljósanætur, sem afmarkast af Tjarnargötu og Duus safnahúsum. Ekki reyndist unnt að framleiða fleiri lampa á svo skömmum tíma. Vonast er til að hægt sé að ljúka útskiptum fyrir Tjarnargötu-Vatnsnesveg fyrir jól og þannig skapa nýja stemningu á þeim kafla. Lamparnir sem settir hafa verið upp eru nýjung og marka ákveðin tímamót í snjallvæðingu Reykjanesbæjar. Auk þess að lýsa hvítu ljósi á götu og gangstéttir Hafnargötunnar er hjálmur hvers lampa, sem sýnist hvítur í dagsbirtu, þannig gerður að geta tekið öllum þeim litum sem litrófið býður upp á. Á Ljósanótt munu þeir því skipta litum og skapa stemningu í takt við það sem er í gangi hverju sinni. Einnig verður tæknin nýtt til að slökkva hvítu gatna- og stígalýsinguna, t.d. á meðan flugeldasýningin stendur yfir. Þessu er öllu stýrt miðlægt og því algjör nýung í okkar bæjarfélagi.

Fuglaskoðunarhúsin og gangstígur á Fitjum
Fuglaskoðunarhúsin tvö á Fitjum eru nýjustu kennileiti bæjarins. JeEs arkitektar hönnuðu þessi einstöku verk sem Húsagerðin byggði af natni og fagmennsku. Til að sýna þessum húsum tilhlýðilega virðingu og umgjörð hannaði Lára Sigríður Örlygsdóttir, lýsingahönnuður, lýsingu sem í senn lýsir húsin á hógværan hátt og hlífir fuglalífi tjarnanna við Fitjar við áreiti ljósmengunar. Bergraf útfærði einstaka LED borða lýsingu sem skilar nákvæmlega því sem hönnuður fyrirskipaði. Sömu aðferð beitti hönnuður við útfærslu á lýsingu göngu- og hjólastígs um Fitjar.

Það er vel við hæfi á Ljósanótt að taka þessar nýjungar í lýsingu í notkun.