Þóra Sigrún Hjaltadóttir leikskólastjóri Skógaráss flutti opnunarræðu. Hjá standa m.a. Ingibjörg Br…
Þóra Sigrún Hjaltadóttir leikskólastjóri Skógaráss flutti opnunarræðu. Hjá standa m.a. Ingibjörg Bryndís Hilmarsdóttir leikskólafulltrúi, Helgi Arnarson sviðsstjóri Fræðslusviðs og Kjartan Már Kjartansson bæjarstjóri.

„Rólurnar standa upp úr, þær eru svo margar,“ sögðu leikskólabörn á Heilsuleikskólanum Skógarási þegar flutt var í nýja skólann. Formleg opnun var í gær. Í máli leikskólakennara og stjórnenda kom fram að þó húsnæðið sé 100 m² minna en fyrra húsnæði nýtist rými nýja húsnæðisins betur. Að auki sé húsnæðið bjart og vel skipulagt.

Starfið í leikskólanum Skógarási hófst síðsumar. Leikskólastarfið í Heilsuleikskólanum Háaleiti var flutt yfir í nýtt húsnæði við Skógarás 932 og um leið fékk skólinn nýtt nafn. Í leikskólanum eru 32 stúlkur og 39 drengir en skólinn rúmar alls 80 nemendur. Hann verður fullsetinn um næstu áramót að því er fram kom í opnunarræðu Þóru Sigrúnar Hjaltadóttur leikskólastjóra í gær. Nemendur eiga bakgrunn í 12 mismunandi þjóðlöndum og tæplega helmingur þeirra eru tvítyngdir. Jóhann Friðrik Friðriksson forseti bæjarstjórnar Reykjanesbæjar sagði í ræðu sinni að bakgrunnur nemenda minnti okkur í hvers konar samfélagi við búum í. Rétt tæpur fjórðungur íbúa er af erlendu bergi brotinn.

Forsaga Heilsuleikskólans Skógaráss er sú að fyrir rúmu ári síðan færðu fasteignafélögin Heimavellir og Ásbrú íbúðir Reykjanesbæ að gjöf húsnæðið við Skógarbraut 932. Húsið var áður samkomuhús á gamla varnarsvæðinu en þótti nýtast vel undir leikskóla. Byggt var við húsið og það lagað að leikskólastarfi. Það þykir hafa tekist vel eins og fram kom við vígsluna.

„Í þessu húsnæði sem býr yfir svona mörgum góðum kostum verður sannarlega hægt að gera gott skólastarf,“ sagði Ingibjörg Bryndís Hilmarsdóttir leikskólafulltrúi Reykjanesbæjar við vígsluna. Hún færði leikskólanum að gjöf handofna körfu frá Senegal í anda þess fjölmenningarstarfs sem fram fer í skólanum.

Með því að smella á þennan tengil opnast vefur Heilsuleikskólans Skógaráss

Nýlegar fréttir úr leikskólastarfi Reykjanesbæjar

Foreldrar í Reykjanesbæ ánægðastir með leikskólastarfið

Hér má sjá hluta starfsfólk með rós sem það fékk að gjöf frá Þóru Sigrúnu leikskólastjóra

Hér má sjá hluta af leiksvæði Skógaráss og húsnæðisins