Frá knattspyrnuæfingu í Reykjaneshöll.
Frá knattspyrnuæfingu í Reykjaneshöll.

Reykjanesbær hefur sett sér það markmið að auka þátttöku barna í íþrótta- og tómstundastarfi. Sérstaklega verður horft til barna af erlendum uppruna, sem skila sér síður í skipulagt íþrótta- og tómstundastarf. Verkefnið hefst með fræðsluerindi fyrir þjálfara og tómstundaleiðtoga í Akademíunni við Krossmóa 13. september kl. 17:00 til 19:00. Foreldrar og aðstandendur barna eru einnig velkomnir á fræðsluerindið.

Þjálfarar og leiðtogar spila lykilhlutverk í þátttöku barna í íþrótta- og tómstundastarfi. Viðmót þjálfara og iðkenda getur skipt sköpum þegar börn eru að stíga sín fyrstu skref á æfingum eða í samverustundum.  Í fræðsluerindinu verður m.a. farið yfir hvernig hægt sé að skapa jákvæða liðsheild,  jákvætt og hvetjandi umhverfi fyrir öll börn í kringum íþrótta- og tómstundastarfið í Reykjanesbæ. Hvernig má styðja börn og hvetja til að verða jákvæða leiðtoga til hagsbóta fyrir alla?

Jón Halldórsson hjá Kvan mun halda fyrirlesturinn, en hann þykir hafa einstakt lag við að koma jákvæðum skilaboðum sem þessum til almennings. Verkefnisstjórar fyrir hönd Reykjanesbæjar eru þær Anna Hulda Einarsdóttir og Anna Sigríður Jóhannesdóttir hjá FFGÍR.