Stelpur filma í Fjörheimum

Stelpur í 8-9 bekk úr grunnskólum Reykjanesbæjar ásamt fulltrúum RIFF, starfsfólki Fjörheima og kvi…
Stelpur í 8-9 bekk úr grunnskólum Reykjanesbæjar ásamt fulltrúum RIFF, starfsfólki Fjörheima og kvikmyndaleikstjóranum Baltasar Kormáki

Vikuna 17 -21. janúar var mikið um að vera í félagsmiðstöðinni Fjörheimum þegar námskeiðið „Stelpur Filma“ var haldið.

Verkefnið er samstarfsverkefni RIFF kvikmyndahátíðar og Reykjanesbæjar, en þetta er í fyrsta skipti sem að námskeiðið er haldið utan höfuðborgarinnar.

„Stelpur Filma“ er vikulangt námskeið þar sem stelpur læra undirstöðuatriði í kvikmyndagerð. Vegna samverkandi þátta eru stelpur ólíklegri til að prófa sig áfram í kvikmyndagerð og láta rödd sína heyrast. Námskeiðið hefur það að markmiði að leiðrétta þennan kynjahalla með því að bjóða upp á rými þar sem stelpur eru hvattar til kvikmyndagerðar. Einnig fá þær hvatningu til að rækta innri sköpunargáfu og að mynda tengsl við kvenkyns fyrirmyndir. Verkefnið er styrkt af Barnamenningarsjóði og voru alls 24 stelpur í 8-9 bekk úr grunnskólum Reykjanesbæjar sem tóku þátt.

Út alla vikuna var farið í margvíslega þætti sem koma að kvikmyndagerð, handritaskrif, leikstjórn, upptökur og klipping svo eitthvað sé nefnt. Stelpurnar fengu svo að vinna í sínum eigin stuttmyndum, en hefð er fyrir því að myndirnar séu sýndar á RIFF kvikmyndahátíðinni. Þátttakendur skemmtu sér konunglega og fengu góða gesti í heimsókn, sjón er sögu ríkari – en starfsfólk Fjörheima fangaði stemninguna í myndbandi.

Kíkið á myndbandið