Stofnun fjölsmiðju á Suðurnesjum

Frá undirskrift um stofnun Fjölsmiðju.
Frá undirskrift um stofnun Fjölsmiðju.

Stofnfundur Fjölsmiðju á Suðurnesjum var haldinn í gær í húsnæði Suðurnesjadeildar Rauða krossins. Undanfarna mánuði hefur á vegum Vinnumálastofnunar, Rauða kross Íslands og sveitarfélaganna á Suðurnesjum verið unnið að undirbúningi þessa en ráðgert er að Fjölsmiðjan starfi með mjög svipuðum hætti og fyrri Fjölsmiðjur sem áður hafa verið stofnaðar þ.e. í Kópavogi og á Akureyri. Ekki þarf að fjölyrða um mikilvægi þess að úrræði af þessu tagi sé til staðar á Suðurnesjum en hvergi er atvinnuleysi meira á landinu en einmitt þar.

Stofnendur Fjölsmiðjunnar á Suðurnesjum eru: Rauði kross Íslands, Suðurnesjadeild Rauða kross Íslands, Reykjanesbær, Vinnumálastofnun, Verkalýðs- og sjómannafélag Keflavíkur og nágrennis, Verslunarmannafélag Suðurnesja og Félag iðn- og tæknigreina í Reykjanesbæ. Einnig geta sveitarfélög, stofnanir, félög, einstaklingar og fyrirtæki orðið aðilar að Fjölsmiðjunni með samþykki stjórnar og öðlast þá sama rétt og stofnaðilar.

Stofnfé Fjölsmiðjunnar verður kr. 36 milljónir sem stofnendur hafa skuldbundið sig til að leggja fram. Stofnfé skiptist þannig að Rauði kross Íslands leggur fram 15 millj. kr., Reykjanesbær  og Vinnumálastofnun 10 millj. kr., Verkalýðs- og sjómannafélag Keflavíkur og nágrennis 600 þús kr., Verslunarmannafélag Suðurnesja 200 þús kr. og Félag iðn- og tæknigreina kr. 200 þús kr.

Stjórn verður skipuð sex fulltrúum til tveggja ára í senn og sex til vara. Eftirfarandi einstaklingar munu skipa fyrstu stjórn Fjölsmiðjunnar á Suðurnesjum:
Rauði kross Íslands: Helga G. Halldórsdóttir aðalmaður.
Reykjanesbær: Kristbjörg Leifsdóttir aðalmaður.
Suðurnesjadeild Rauða krossins: Rúnar Helgason aðalmaður og Steinunn Sighvatsdóttir varamaður.
Vinnumálastofnun: Gissur Pétursson aðalmaður og Margrét Linda Ásgrímsdóttir varamaður.
Menntamálaráðuneytið: Kristján Ásmundsson aðalmaður.
Stéttarfélögin í sameiningu: Ólafur S. Magnússon aðalmaður og Guðmundur Finnsson varamaður.

Framundan er hjá stjórninni að ráða starfsfólk, finna húsnæði undir starfsemina, gera rekstrar- og fjárhagsáætlun, gera samninga við kaupendur þjónustunnar þ.e. sveitarfélögin, VMST, Menntamálaráðuneytið og etv. fleiri aðila. Ráðgert er að til að byrja með verði um 20 - 25 einstaklingar í Fjölsmiðjunni á Suðurnesjum á hverjum tíma í fjórum til fimm deildum.