Stórsigur í Útsvari!

Útsvarsliðið sigursæla.
Útsvarsliðið sigursæla.

Lið Reykjanesbæjar kom, sá og sigraði í Útsvari sl. föstudag þegar það mætti liði Garðabæjar og sigraði með 105 gegn 39 stigum og sló um leið stigamet þáttarins á þessum vetri.

Óhætt er að segja að flestir hafi átt von á hörku keppni enda hefur lið Garðabæjar verið fremur harðskeytt með Vilhjálm Bjarnason fremstan í flokki, sem lýsti því í upphafi þáttar að hann væri búinn að taka oftar þátt í keppninni heldur en sjálfir þáttarstjórnendurnir.

Lið Garðabæjar sá þó aldrei til sólar í keppninni gegn Reykjanesbæ enda stóð liðið sig stórkostlega að vanda. Reynsluboltarnir Baldur og Hulda skiluðu sínu og gott betur og engan nýliðabrag var heldur að finna á Grétari Þór sem stóð sig með eindæmum vel og er þar á ferð glæsilegur fulltrúi ungu kynslóðarinnar. Liðsfélagar Vilhjálms úr Garðabæ, þær Karen Kjartansdóttir og Ingrid Kuhlman gerðu sitt ítrasta til að hughreysta Vilhjálm sem átti erfitt með að hemja tilfinningar sínar og barði ítrekað í borðið þegar örvæntingin varð sem mest.

Lið Reykjanesbæjar, sem er ekki síður þekkt fyrir skemmtilegheit, breytti í engu út af vananum og þegar úrslitin lágu fyrir stóðst Baldur ekki mátið og bauð upp á „Gálgahúmor“ af bestu gerð þegar hann sagði að þau hefðu hreinlega „hraunað“ yfir Garðabæ.
Við þökkum Útsvarsliðinu skemmtunina og óskum þeim góðs gengis í næstu umferð.